Kjarasamningar samþykktir hjá öllum sem hafa samið

Kjarasamningar sem greidd hafa verið atkvæði um hafa allir verið samþykktir.

Atkvæðagreiðslum um flesta kjarasamninga aðildarfélaga BSRB sem lokið hafa gerð kjarasamnings er nú lokið og voru samningarnir í öllum tilvikum samþykktir með miklum meirihluta greiddra atkvæða.

Alls samþykktu á bilinu 58 til 89 prósent félagsmanna kjarasamningana. Í tveimur tilvikum samþykktu 100 prósent samningana, en þar voru aðeins örfáir starfsmenn á bak við hvorn samning.

Þátttaka í atkvæðagreiðslum var almennt mjög góð, sér í lagi ef horft er til þess að kórónafaraldurinn hafði mikil áhrif á kynningu á kjarasamningunum meðal félagsmanna. Þátttakan var á bilinu 28 til 70 prósent, misjafnt eftir félögum.

Niðurstöður úr einstökum atkvæðagreiðslum má sjá hér.

Enn á eftir að greiða atkvæði um samning Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga en atkvæðagreiðslan hófst í gær og mun ljúka 6. apríl næstkomandi.

Þá eiga nokkur af aðildarfélögum BSRB enn ósamið við sína viðsemjendur. Ekki hafa tekist samningar milli Landssambands lögreglumanna og ríkisins eða Tollvarðafélags Íslands og ríkisins. Sama gildir um Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og ríkið. Þá á Sjúkraliðafélag Íslands eftir að ljúka gerð kjarasamnings við Reykjavíkurborg og Starfsmannafélag Garðabæjar á ósamið við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Að auki eiga nokkur af aðildarfélögunum sem hafa gert kjarasamninga við sína megin viðsemjendur ósamið við einhverja aðra viðsemjendur, svo sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?