Ný stjórn kjörin á þingi SLRB

Vel var mætt á þing SLRB.

Ný stjórn Sambands lífeyrisþega ríkis og bæja (SLRB) var kjörin á þingi sambandsins í gær. Afar góð mæting var á þingið og var fullt út úr dyrum í sal BSRB við Grettisgötu.

Elín Brimdís Einarsdóttir, sem hefur gegnt embætti formanns félagsins frá árinu 2009 gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu en enginn gaf kost á sér í embættið og var nýr formaður því ekki kjörinn.

Ný stjórn sambandsins mun því á fyrsta fundi sínum skipta með sér verkum og taka ákvörðun um framhaldið. Í stjórnina voru kjörin þau Ingibjörg Óskardóttir, Guðrún Árnadóttir, Bjarnfríður Jóhannsdóttir, Óskar Sigurpálsson og Vilborg Gunnarsdóttir. Varamenn voru kjörnir þau Sigurður H. Helgason, Sjöfn Ingólfsdóttir, Alda Særós Þórðardóttir og Stefanía Vigfúsdóttir.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, ávarpaði þingið. Hún sagði alla hópa samfélagsins jafn mikilvæga og að allir þurfi þeir að ná eyrum stjórnvalda og semja um lífskjör sín. Þar skipti samstaðan máli og að vinna skipulega að því að ná lausnum sem allir geti sætt sig við.

Elín Björg sagði líka frá 45. þingi BSRB, sem haldið verður dagana 17. til 19. október næstkomandi, en þar mun SLRB eiga þrjá þingfulltrúa.

Að loknu ávarpi Elínar Bjargar tóku þau Kristín Á. Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður Sjúkraliðafélags Íslands og stjórnarmaður í BSRB, Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og formaður BSRB, um málefni lífeyrisþega frá ýmsum sjónarhornum.

Frá þingi SLRB

Kristín Á. Guðmundsdóttir (t.v.), Elín Brimdís Einarsdóttir og Ögmundur Jónasson.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?