Mörg okkar finna fyrir sívaxandi neikvæðri umræðu um hinsegin fólk og upplifum okkur vanmáttug og orðvana gagnvart þróuninni. Á námskeiðinu í morgun fengu þátttakendur verkfæri til að takast á við fordóma í eigin nærumhverfi. Fræðslan fjallaði bæði um birtingarmyndir og áhrif hatursorðræðu á einstaklinga og samfélagið allt, og um leiðir til að bregðast við slíkri orðræðu með svokölluðum gagnræðu aðferðum (e. counterspeech).
Fræðslan var í höndum Þorbjargar Þorvaldsdóttur, samskipta- og kynningarstjóra hjá Samtökunum 78. Hún lagði áherslu á að hatursorðræðu eigi ekki að láta ósvarað. Ábyrgðin hvíli á okkur öllum – við höfum öll okkar áhrifahring og getum lagt af mörkum við að sporna gegn hættulegri orðræðu. Ef við látum hatursorðræðu óáreitta fær hún meira pláss, sem ýtir smám saman undir fordóma, mismunun og ofbeldi.
Fræðslan er liður í sameiginlegu átaki heildarsamtaka launafólks til að efla starfsfólk stéttarfélaga í baráttunni fyrir jöfnuði og mannréttindum.