Sameyki kynnir stofnanir ársins

Hluti sigurvegaranna tóku á móti viðurkenningum frá Sameyki.

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu kynnti í gær valið á Stofnun ársins 2019 við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica. Titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna.

Valið er byggt á svörum rúmlega 10 þúsund starfsmanna í einni stærstu vinnumarkaðskönnun landsins, eins og fram kemur í frétt frá Sameyki. Stofnanir ársins 2019 eru Frístundamiðstöðin Tjörnin, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Persónuvernd, Skrifstofa velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Ríkisendurskoðun. Hástökkvarar ársins eru Skrifstofa Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra.

Könnun meðal félagsmanna er unnin í samstarfi Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og VR, sem mun kynna niðurstöður sínar síðar. Gallup sér um framkvæmd könnunarinnar sem er stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og var úrtakið tæplega 50.000 manns.

Könnunin gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu, það er trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur að gera vel í starfsmannamálum og að auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að heildareinkunn hefur almennt hækkað örlítið á undanförnum árum. Þá hefur álag og streita í starfsumhverfi einnig aukist að mati starfsmanna undanfarin ár. Það sem vekur hvað mesta athygli nú er að þátturinn sem mælir tilfinningu starfsmanna fyrir jafnrétti á vinnustöðum tekur nú stóran kipp upp á við. Því má eflaust þakka vitundarvakningu um jafnréttismál, til dæmis í tengslum við #metoo og beinna aðgerða á vinnustöðum svo sem innleiðingu jafnlaunastaðals, tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar og fleiru.

Ánægja með launakjör skorar enn lægst allra þátta og er vert að vekja athygli á því í ljósi þess að nú standa yfir kjarasamningsviðræður við viðsemjendur Sameykis og önnur aðildarfélög BSRB.

Eftirfarandi stofnanir hljóta titilinn Stofnun ársins og Stofnun ársins – borg og bær en þeim er skipt niður eftir stærð stofnunarinnar.

Stofnun ársins borg og bær
  • Stofnun ársins - Borg og bær í flokki stærri stofnana (50 starfsmenn og fleiri) er Frístundamiðstöðin Tjörnin með einkunnina 4,453.
  • Stofnun ársins - Borg og bær í flokki minni stofnana (færri en 50 starfsmenn) er Skrifstofa velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með einkunnina 4,352.
  • Titilinn Hástökkvari fær sú stofnun sem hækkar sig mest á milli ára. Í ár er það Skrifstofa velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem hlýtur þann titil.
Stofnun ársins – ríki, sjálfseignarstofnanir o.fl.
  • Stofnun ársins í flokki stærri stofnana (50 starfsmenn eða fleiri) er Ríkisendurskoðun með einkunnina 4,449.
  • Stofnun ársins í flokki meðalstórra stofnana (20-49 starfsmenn) er Menntaskólinn á Tröllaskaga með einkunnina 4,738.
  • Stofnun ársins í flokki minni stofnana (færri en 20 starfsmenn) er Persónuvernd með einkunnina 4,648.
  • Titilinn Hástökkvari fær sú stofnun sem hækkar sig mest á milli ára. Í ár hlýtur þann titil Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra.
Í flokknum Stofnun ársins – borg og bær fá að auki fjórar stofnanir í hvorum flokki titilinn Fyrirmyndarstofnun:
  • Fyrirmyndarstofnanir í flokki stærri stofnana eru ásamt Frístundamiðstöðinni Tjörninni: Norðlingaskóli, Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Laugarnesskóli og Orkuveita Reykjavíkur.
  • Fyrirmyndarstofnanir í flokki minni stofnana ásamt Skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eru: Aðalskrifstofa Akranesskaupstaðar, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur og Félagsþjónustusvið Seltjarnarness.
Í flokknum Stofnun ársins fá að auki fjórar stofnanir í hvorum flokki titilinn Fyrirmyndarstofnun:
  • Fyrirmyndarstofnanir í flokki stærri stofnana eru ásamt Ríkisendurskoðun, Reykjalundur, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Ríkisskattstjóri og Skógræktin.
  • Fyrirmyndarstofnanir í flokki meðalstórra stofnana ásamt Menntaskólanum á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Einkaleyfastofan, Menntaskólinn að Laugarvatni og Samkeppniseftirlitið.
  • Fyrirmyndarstofnanir í flokki minni stofnana eru ásamt Persónuvernd: Héraðsdómur Suðurlands, Jafnréttisstofa, Geislavarnir ríkisins og Lögreglan í Vestmannaeyjum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?