Starfsmannafélag Fjallabyggðar sameinast Kili

Félagsmenn í Starfsmannafélagi Fjallabyggðar samþykktu einróma að sameina félagið Kili stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu á aðalfundi félagsins.

Félagsmenn í Starfsmannafélagi Fjallabyggðar samþykktu einróma að sameina félagið Kili stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Sameiningin tekur þegar gildi en bókhaldsleg sameining verður um áramótin.

Þetta er fjórða félagið sem sameinast Kili á skömmum tíma, en áður höfðu félagsmenn í Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellssýslu og Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum samþykkt að sameina félögin Kili. Kjölur er eitt af stærstu og öflugustu aðildarfélögum BSRB og ljóst að sameiningarnar verða til þess að styrkja stöðu félagsmanna í öllum félögunum sem nú hafa sameinast. BSRB óskar félögunum til hamingju með þessar sameiningar.

Kjölur er deildaskipt félag og í kjölfar sameiningarinnar verður stofnuð St.Fjall deild innan Kjalar. Aðrar deildir félagsins eru: Akureyri, Borgarbyggð, Dala – og Snæfellssýslu, Dalvíkurbyggð, Fjarðabyggð, Húnavatnssýslum, Siglufirði, Sveitarfélaginu Skagafirði og Vestfjörðum. Við sameininguna tekur Guðbjörn Arngrímsson, fráfarandi formaður Starfsmannafélags Fjallabyggðar, sæti í stjórn Kjalar.

Félagsaldur félagsmanna Starfsmannafélags Fjallabyggðar flyst að fullu til sjóða Kjalar stéttarfélags, orlofssjóðs og starfsmenntasjóðs. Til áramóta verður afgreiðsla styrkja starfsmenntasjóðs og afgreiðsla orlofshúsa með óbreyttu sniði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?