Stöðva þarf atgervisflótta í almannaþjónustu

Það er jákvætt að vinna eigi heildarstefnu í heilbrigðiskerfinu en vandinn er víðar en þar. Móta ætti framtíðarstefnu í mannauðsmálum ríkisins að mati BSRB.

Leita á leiða til að fjölga starfsfólki í stéttum í heilbrigðiskerfinu sem glíma við atgervisflótta, þar með talið sjúkraliðum, að því er fram kemur í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi. BSRB telur mikilvægt að móta framtíðarstefnu í mannauðsmálum hjá ríkinu.

Í svarinu kemur fram að meðal þeirra þátta sem sé vert að skoða séu starfsumhverfi, launastefna, vinnutími, leiðir til að gera vaktavinnu meira aðlaðandi, hugsanleg stytting vinnuskyldu og möguleikar til framgangs í starfi og starfsþróunar.

Í könnun sem gerð var á tíu stofnunum í september 2016 kom fram að þar væru starfandi 1.104 sjúkraliðar í 778 stöðugildum. Stjórnendur sjö af tíu stofnanna töldu þá að mikilvægt væri að fjölga sjúkraliðum á stofnuninni.

Svipaða sögu má segja af hjúkrunarfræðingum. Nærri 300 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa til að manna fjármögnuð stöðugildi á heilbrigðisstofnunum.

Bæði hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar vinna almennt ekki fulla vinnu sökum álags. Meðalstarfshlutfall sjúkraliða er um 75 prósent en hlutfallið er um 71 prósent hjá hjúkrunarfræðingum. Þetta lága starfshlutfall er skýr vísbending um að álag í starfi sé of mikið. Önnur vísbending er fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sem eru með stoðkerfisvandamál eða andleg vandamál.

Vandinn er víðar

Þó vandinn sé mikill í heilbrigðiskerfinu eru fleiri stéttir sem starfa í almannaþjónustu að glíma við vandamál af sama meiði. Þar nægir að nefna menntageirann, þar sem konur eru einnig í meirihluta.

Í svari sínu boðar heilbrigðisráðherra að mótuð verði heildarstefna í heilbrigðiskerfinu, eins og BSRB hefur hvatt til. Það er mikið fagnaðarefni en gera þarf slíka heildarstefnu víðar og móta framtíðarstefnu í mannauðsmálum hjá stofnunum ríkisins. Atgervisflótta í stéttum sem eru mikilvægar fyrir grunnstoðir samfélagsins verður að stöðva.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?