Tækifæri til að læra um alþjóðahreyfinguna

Fjöldi nemenda sækir Genfarskólann á hverju ári.

Virkir félagsmenn í aðildarfélögum BSRB sem hafa áhuga á að læra meira um alþjóðamál verkalýðshreyfingarinnar geta sótt um að komast í nám í Norræna lýðháskólanum í Genf, Genfarskólanum, en hægt er að sækja um til loka janúar 2019.

Mikilvægt er að umsækjendur hafi þekkingu á starfsemi stéttarfélaga á Íslandi og hafi sótt fræðslustarf á vegum hreyfingarinnar. Nám við Genfarskólann fer fram samhliða Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf. Í náminu kynnast nemendur þinghaldinu og ILO, Alþjóðavinnumálastofnuninni, sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Nemendur sækja fyrst kynningarfundi hér á landi og fara á fornámskeið í Svíþjóð 25. til 28. apríl, auk þess að stunda nám í fjarnámi í apríl og maí. Lokaáfangi námsins fer fram í Genf 6 til 25. júní. Þátttakendur þurfa að hafa gott vald á einu norðurlandamáli auk þess að hafa góða enskukunnáttu.

Eins og undanfarin ár munu tveir nemendur frá Íslandi sækja Genfarskólann. BSRB og ASÍ greiða námsgjöld og flugfargjöld fyrir einn nemanda hvort.

Nánari upplýsingar má finna á vef Genfarskólans þar sem einnig er hægt að sækja um að komast í námið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?