Það er kominn tími til að breyta reglunum

Í dag, 1. maí, vottum við virðingu þeim sem hafa lagt mikið af mörkum í baráttu fyrir grundvallarréttindum sem margir telja sjálfsögð í dag.

„Stéttarfélög munu ávallt standa vörð um þau gildi sem eru kjarninn í starfi okkar, en þau eru jöfnuður, virðing, þróun, lýðræði og friður. Einungis með því að stefna að slíkum markmiðum, í krafti sameiginlegra aðgerða og samstöðu, lifir vonin um betri heim,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga, ITUC, í dag, 1. maí 2018.

Hér er yfirlýsingin í heild í þýðingu ASÍ:

Fyrir hundrað og fimmtíu árum sameinuðust verkamenn í Bretlandi um að stofna fyrstu landssamtök verkalýðsfélaga í borginni Manchester. Þeir, ásamt verkafólki á mörgum öðrum stöðum á þeim tíma, lögðu grunninn að núverandi heimshreyfingu verkalýðsfélaga sem telja nú yfir 200 milljónir félagsmanna. Allt frá því þessi fyrstu skref voru stigin hafa karlar og konur unnið skipulega saman, að því að byggja upp og hlúa að verkalýðsfélögum sínum og þannig breytt gangi sögunnar.

Í dag, 1. maí 2018, vottum við virðingu öllum þeim sem hafa lagt svo mikið af mörkum í baráttunni fyrir grundvallarréttindum sem svo margir telja sjálfsögð nú - félagafrelsi, réttinum til kjarasamninga, vernd gegn mismunun og arðráni, og öryggi á vinnustað. Við sýnum einnig samstöðu þeim sem ekki fá notið þessa réttar, fólki sem býr í heimi þar sem reglurnar um þennan rétt gilda ekki um alla. Fólki sem á í sömu baráttu gegn arðráni og misnotkun sem mæður okkar og feður þurftu að heyja fyrir einni og hálfri öld.

Okkur er einnig ljóst að máttugt afl vinnur nú að því að þurrka út þær reglur sem gilda fyrir alla. Engin takmörk virðast vera á völdum fyrirtækjanna, lýðræðisríki eru í heljargreipum auðugast hundraðshluta mannkyns og stjórnvöld í of mögum ríkjum standa aðgerðalaus hjá í stað þess að standa með vinnandi fólki. Framtíð jarðarinnar og íbúa hennar er í húfi þegar græðgi fámenns forréttindahóps ógnar lífskjörum almennings og efnahagslíkanið sem sá hópur þröngvar uppá heiminn, þurrkar upp takmarkaðar auðlindir jarðar. Lýðskrumi og útlendingahatri vex fiskur um hrygg, í krafti almennrar óánægju sem nærist á ójöfnuði og óöryggi, einkennum misheppnaðrar hnattvæðingar nútímans.

Stéttarfélög munu ávallt standa vörð um þau gildi sem eru kjarninn í starfi okkar, en þau eru jöfnuður, virðing, þróun, lýðræði og friður. Einungis með því að stefna að slíkum markmiðum, í krafti sameiginlegra aðgerða og samstöðu, lifir vonin um betri heim. Heim þar sem reglur eru til hagsbóta fyrir fólk.

Það er kominn tími til að breyta reglunum, varpa fyrir róða þeim fjötrum sem lýðræði og mannréttindi hafa verið hneppt í. Það verða stéttarfélögin sem láta þá von rætast, með því vinna að efla völd vinnandi fólks í borgum, bæjum og í dreifbýli, á vinnustöðum og í samfélögum um allan heim. Við höldum upp á 1. maí í þeirri staðföstu trú að grundvöllur hreyfingarinnar verði hornsteinn framtíðarinnar.

Alþjóðasamtök verkalýðsfélaga eru fulltrúar 207 milljóna félagsmanna og -kvenna í 331 aðildarfélagi í 163 ríkjum og umdæmum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?