Þrjú námskeið um styttingu vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar er efni námskeiða Félagsmálaskóla alþýðu í september.

Félagsmálaskóli alþýðu mun bjóða upp á þrjú námskeið um styttingu vinnuvikunnar í september þar sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB geta fræðst um ýmsa þætti styttingarinnar.

Fyrsta námskeiðið fjallar um hugarfarsbreytingu og hugmyndafræðina a bak við styttinguna. Ýmsar áskoranir hafa komið upp í innleiðingarferlinu tengt útfærslu á einstökum vinnustöðum og því getur verið mjög hjálplegt að fara yfir hvernig hægt er að endurskipuleggja vinnuna svo styttingin hafi tilætluð áhrif. Námskeiðið fer fram 14. september næstkomandi.

Annað námskeiðið fjallar um útfærslu styttingar vinnuvikunnar á vaktavinnustöðum. Útfærslan á styttingu þar sem unnið er á vöktum geta virkað flóknar og því verður leitast við að skýra þessar breytingar með því að fara yfir ákvæði kjarasamninga, formlegt ferli og útfærslu styttingarinnar. Sérstaklega verður fjallað um hvernig hægt er að stytta vinnutímann án þess að skerða þjónustu vinnustaða eða ganga á réttindi eða skyldur starfsmanna. Námskeiðið fer fram þann 23. september.

Þriðja námskeiðið fjallar um styttingu hjá iðnaðarmönnum. Þar verður fjallað um styttinguna, undirbúning, framkvæmd og innleiðingu, um gerð vinnustaðasamninga og yfirvinnuálag. Námskeiði fer fram þann 30. september.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna í fréttabréfi Félagsmálaskóla alþýðu, auk þess sem þar má finna leiðir til að skrá sig til þátttöku.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?