Úkraínskar konur heimsækja BSRB

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB fundaði á föstudag með konum frá m.a. Kvenréttindafélagi Úkraínu (Ukrainian Women's Congress) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE). Þær eru hér á landi til að taka þátt í Kynjaþingi og segja frá stöðu kvenna í Úkrínu á stríðstímum og fræðast jafnframt um jafnréttisaðgerðir á Íslandi sem geti orðið leiðarljós fyrir aukin kvenréttindi í Úkraínu til framtíðar. Sonja fjallaði um kvennasamstöðu sem hreyfiafl framfara í jafnréttismálum á Íslandi, mikilvægi leikskóla fyrir öll börn til að gera konum kleift að vera fullir þátttakendur á vinnumarkaði, skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra og leiðir til að takast á við kynbundinn launamun.

Konur í Úkraínu eru nú, á stríðstímum, í farabroddi í atvinnulífinu þar í landi. Samstaða þeirra er mikil og það þarf útsjónasemi og nýsköpun til að halda samfélaginu gangandi við þær skelfilegu aðstæður sem nú ríkja í landinu. Þær fara fyrir litlum og meðalstórum fyrirtækjum og eru atkvæðamiklar í landbúnaðarframleiðslu en á sama tíma eru þær að beita sér fyrir lýðræðisumbótum og því að treysta stoðirnar undir aukið jafnrétti til framtíðar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?