Viðmið um tekjur og eignir leigutaka Bjargs hækka

Fyrsta íbúð Bjargs íbúðafélags var afhent um mitt ár í fyrra, og hafa nú rúmlega 170 íbúðir verið afhentar leigjendum.

Hámarksviðmið um tekjur og eignir leigutaka hjá Bjargi íbúðafélagi hækka í kjölfar breytinga sem Alþingi gerði á lögum um almennar íbúðir. Breytingarnar tóku gildi í byrjun janúar.

BSRB og Bjarg íbúðafélag fagna þessum breytingum sem munu veita fleiri einstaklingum og fjölskyldum kost á hagkvæmu og öruggu leiguhúsnæði. Opið er fyrir skráningar samkvæmt nýju tekjuviðmiði á vef Bjargs.

Þá munu virkir umsækjendur sem áður höfðu fengið höfnun vegna of hárra tekna eða eigna, en falla nú undir ný viðmið, fá boð um íbúð eftir því sem þær standa til boða.


Hámarksviðmið eru nú eftirfarandi:

  • 6.420 þúsund krónur á ári, fyrir skatta (eða 535 þúsund krónur á mánuði) fyrir hvern einstakling.
  • 8.988 þúsund krónur á ári, fyrir skatta (eða 749 þúsund krónur á mánuði) fyrir hjón og sambúðarfólk.
  • 1.605 þúsund krónur á ári, fyrir skatta (eða 133.750 krónur á mánuði) fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu.
  • Þá má heildareign heimilis ekki vera hærri en 6.930 þúsund krónur.

Á næstu dögum og vikum mun Bjarg opna fyrir umsóknir á fjórum nýjum stöðum; í Hraunbæ, á Kirkjusandi, í Silfratjörn í Úlfarsárdal og í Guðmannshaga á Akureyri. Nú þegar er opið fyrir umsóknir vegna leiguíbúða í Þorlákshöfn. Nánari upplýsingar um nýjar íbúðir og skilyrði fyrir úthlutun má finna á vef Bjargs.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félögum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd. Leiðarljós félagsins er að byggja vel hannað, hagkvæmt og endingargott húsnæðihúsnæði. Miðað er við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25 prósent af heildartekjum leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?