Viðræður halda áfram í kapphlaupi við tímann

Verkföll munu skella á klukkan 12 á miðnætti náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Samninganefndir BSRB og aðildarfélaga bandalagsins funduðu með viðsemjendum hjá Ríkissáttasemjara fram yfir miðnætti í gær og fundir hófust að nýju klukkan 10 í morgun. Reynt verður til þrautar að ná samningum áður en boðuð verkföll aðildarfélaga BSRB hefjast á miðnætti í kvöld.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að mál hafi þokast eitthvað í gær en það sé þó mismunandi á milli viðsemjenda hvernig gangurinn er í viðræðunum. Þannig sé ágætur gangur í viðræðum bæjarstarfsmannafélaganna innan BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga og fáir lausir endar sem eigi eftir að hnýta þar.

Annað sé uppi á teningnum í viðræðum aðildarfélaga við ríkið og Reykjavíkurborg þar sem meira beri á milli. Þannig er tekist á um launaliðinn hjá Sameyki, þar sem ríkið neitar að bjóða félagsmönnum upp á launahækkanir í samræmi við lífskjarasamninginn, þrátt fyrir þá miklu áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á að þeir samningar sem aðildarfélög BSRB gera rúmist innan þess ramma.

Þá eru ýmis mál ófrágengin hjá Sjúkraliðafélagi Íslands gagnvart þeirra viðsemjendum og nokkuð í land eigi samningar að nást.

Boðuð verkföll aðildarfélaga BSRB munu hefjast á miðnætti í kvöld. Ákveðið hefur verið að gera undanþágu fyrir sjúkraliða og annað starfsfólk á Landspítalanum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrstu tvo daga verkfallsins vegna COVID-19 faraldursins. Að öðru leyti munu aðgerðir hefjast samkvæmt áætlun, náist ekki samningar fyrir miðnætti.

Hægt er að skoða hvernig verkfallsaðgerðum verður háttað hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?