Atvinnurekandans að tryggja rétt orlof

Fróðleikur
Réttur til frítöku hefur verið felldur niður af íslenskum dómstólum þrátt fyrir að starfsmenn viti ekki af honum.

Nýlegur dómur Evrópudómstólsins bendir til þess að íslenskir dómstólar hafi ranglega látið kröfur starfsmanna vegna orlofs falla niður vegna tómlætis. Dómurinn er skýr um það að atvinnurekendum ber að tryggja að starfsmenn fái upplýsingar um ótekið orlof og frítökurétt.

Hér á landi gilda tvær tilskipanir Evrópusambandsins á grundvelli EES-samningsins sem fela í sér tiltekin réttindi launafólks. Annars vegar tilskipun nr. 89/391 um aukið öryggi og heilbrigði launafólks og hins vegar tilskipun nr. 2003/88 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Þessar tilskipanir tryggja margvísleg réttindi og meðal þeirra er dagleg lágmarkshvíld starfsmanna og vikulegir frídagar en einnig sá áskilnaður að tilgreina skuli uppsafnaðan frítökurétt á launaseðli starfsmanns.

Þegar starfsmaður á ótekið orlof hafa íslenskir dómstólar talið það geta hafa fallið niður fyrir tómlæti þar sem starfsmaður krafðist þess ekki að fá það greitt eða tekið út fyrr en seint og síðar meir. Umræddur starfsmaður vissi ef til vill ekki að hann ætti inni ótekið orlof eða uppsafnaðan frítökurétt þar sem ekkert kom fram um slíkt á launaseðli og upplýsingagjöf atvinnurekanda var ef til vill ekki nægileg.

Þrátt fyrir það hafa dómstólar talið kröfur vegna slíks orlofs fallnar niður vegna tómlætis, það er vegna þess að of langur tími leið frá því réttur til frítöku skapaðist þar til starfsmaður krafðist þess að fá að nýta hann, eða fá orlofið greitt.

Nýlegur dómur Evrópudómstólsins tekur af öll tvímæli um að það sé á ábyrgð atvinnurekanda, en ekki starfsmanns, að tryggja öryggi, heilbrigði og aðbúnað starfsmanna sinna og verður að telja að atvinnurekanda beri þá að sjá til þess að starfsmenn fái bæði upplýsingar um ótekið orlofs eða frítökurétt sinn auk þess að þeim sé gert kleift að nýta sér sitt orlof án þess að krafa þess efnis falli niður fyrir tómlæti. Dómurinn bendir til þess að íslenskir dómstólar hafi beitt tilskipun Evrópusambandsins með röngum og íþyngjandi hætti á síðustu árum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?