Ekki bannað að prenta út launaseðla

Fróðleikur
Áfram má prenta út launaseðla starfsfólks með samþykki þess.

Síðastliðið sumar tóku gildi hér á landi ný persónuverndarlög sem fela í sér innleiðingu á evrópskum reglum sem hafa verið nefndar GDPR, eða General Data Protection Regulation. Í kjölfarið hefur meðvitund flestra þegar kemur að meðferð og vinnslu persónuupplýsinga aukist til muna. Þessar reglur fela að einhverju leyti í sér ný viðmið en að stórum hluta er þó einungis verið að skerpa á reglum sem voru til staðar en litið var að mestu leyti fram hjá. Eftir að reglurnar tóku gildi hér á landi hafa ýmsir aðilar breytt sínum vinnuferlum og venjum í þeim tilgangi að vernda persónuupplýsingar en sumir hafa þó gengið töluvert lengra en þörf er á.

Einhverjir atvinnurekendur hættu til að mynda að prenta út launaseðla starfsmanna sinna og afhenda þeim þá, eins og þeir höfðu gert um áratuga skeið, á grundvelli þess að það sé nú bannað vegna nýrra reglna um persónuvernd. Yfir þessu hefur starfsfólk kvartað og þá sérstaklega þeir sem hafa ekki vanið sig við notkun á heimabanka. Þessir starfsmenn hafa þá átt í erfiðleikum með að nálgast launaseðla sína vegna breyttra aðferða vinnuveitanda.

Í kjarasamningum er almennt fjallað um rétt starfsmanna til þess að fá launaseðla senda á heimili sitt á pappírsformi. Þeir atvinnurekendur sem hafa talið sig ekki geta uppfyllt þá skyldu sína samkvæmt ákvæði kjarasamningsins hafa borið því við að slík vinnsla sé til þess fallin að stefna persónuupplýsingum í hættu. Það er hins vegar misskilningur og er vel hægt að uppfylla almenn skilyrði fyrir vinnslu þó starfsmönnum sé afhentur launaseðill á pappírsformi. Til dæmis er hægt að óska eftir skriflegum samþykki starfsmanns um að slíkt sé gert. Með því móti liggur fyrir samþykki starfsmanns og vinnuveitandi einungis að uppfylla ósk starfsmanns um að fá launaseðil sendan heim eða afhentan á starfstöð sinni. Lög um persónuvernd gera ríkar kröfur til þess hvernig samþykki er úr garði gert og þarf samþykki að vera skriflegt, gefið af fúsum og frjálsum vilja og skal vera hægt að draga það til baka hvenær sem er.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?