Hamfarahlýnun krefst markvissra aðgerða

Fróðleikur
Votlendi og skógar binda koltvísýring og vinna þannig gegn hamfarahlýnun.

BSRB og aðrir aðilar vinnumarkaðarins þurfa að leggjast á árarnar eins og aðrir til að bregðast við hamfarahlýnun, þó að það hljóti að vera stjórnvöld sem verða að beita sér fyrir samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda.

Hitastig á jörðinni hefur hækkað um 1°C frá iðnvæðingu (1850 til 1900) og aldrei fyrr í stormasamri sögu jarðarinnar hefur hitastig breyst svo hratt. Að óbreyttu mun hlýnunin nema 1,5°C í kringum árið 2040. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar notkunar á landi.

Hlýnunin er þegar farin að hafa umfangsmikil áhrif á jörðina og íbúa hennar. Þurrkar hafa aukist, sjávarborð hefur hækkað vegna bráðnunar jökla og íss á heimskautunum, hafið súrnar og fjöldi plöntu- og dýrategunda eru í útrýmingarhættu eða þegar horfin. Hlýnuninni fylgir einnig meiri veðurofsi sem hefur leitt til úrhellisrigninga, aurskriða, sterkari fellibylja og tíðari og skæðari skógarelda. Þessar hamfarir hafa gríðarleg neikvæð áhrif á efnahag, vistkerfi, heilsu og lífsgæði og munu hrekja gríðarlegan fjölda fólks á flótta frá heimkynnum sínum.

Árið 2015 gerðu þjóðir heimsins með sér samkomulag sem kennt er við París með það að markmiði að halda hlýnun jarðar vel innan við 2°C og sem næst 1,5°C hlýnun miðað við tíma iðnvæðingar. Til að þetta markmið náist þarf að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Koltvísýringur og metan eru lang algengustu gróðurhúsalofttegundirnar. Árleg losun þeirra á heimsvísu nam nærri 40 milljörðum tonna árið 2017 sem er fjórföldun frá árinu 1960. Ef frá er talin losun frá landi þá losuðu Íslendingar tæplega 5 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum árið 2017. Sú losun er auðvitað mjög lítill hluti af heildinni en mjög mikil ef litið er til þess að losun á hvern Íslending er nær þreföld á við meðal jarðarbúann og tvöföld á við íbúa í Evrópusambandinu.

Ísland losar fimm milljónir tonna

Af þeim tæplega fimm milljónum tonna sem Ísland losar árlega falla um tvö undir svokallað evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir. Eftir standa þá um þrjár milljónir tonna. Ríkisstjórnin hefur sett sér þau markmið að minnka losunina um milljón tonn á næstu 10 árum og ná kolefnishlutleysi árið 2040 en það þýðir að losunin verði eins lítil og frekast er unnt en að á móti verði kolefni bundið í svipuðu magni.

Stjórnvöld leika lykilhlutverk í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda. En til að markmið Parísarsáttmálans náist þurfa allir að leggjast á árarnar, líka sterk samtök eins og BSRB. Á næstunni munum við fjalla nánar um loftslagsmálin, aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda og áherslur BSRB á sviði loftslagsmála.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?