Þarf að bjóða upp á hlutlausa skráningu kyns

Fróðleikur
Lög sem heimila fólki að skilgreina sitt kyn tóku gildi um mitt ár 2019.

Jafnréttismál eru kvikur málaflokkur þar sem þekkingu fleygir fram og viðmið breytast reglulega. Í kjölfarið verða oft til ný lög og nýjar reglur. Eitt af því sem hefur breyst undanfarin ár er að nú hefur fólk rétt til þess að skilgreina kyn sitt sjálft. Þetta breyttist með lögum um kynrænt sjálfræði sem tóku gildi um mitt ár 2019. Kynin eru því ekki lengur bara tvö, karl og kona, heldur þarf að gera ráð fyrir fólki sem skilgreinir sig fyrir utan hið hefðbundna kynjakerfi. Markmiðið er að bæta réttarstöðu ýmissa hópa sem löggjöf hefur ekki náð utan um fram að þessu. Í þennan hóp geta meðal annars fallið trans og intersex fólk, auk allra þeirra sem finna sig hvorki í hlutverki karls né konu (enska: non- binary, genderqueer).

Þetta þurfa stéttarfélög og vinnustaðir að hafa í huga, því lögin leggja skyldu á opinbera aðila og einkaaðila sem skrásetja kyn að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu. Alls kyns gagnasöfn, eyðublöð og fleira gæti því þurft að uppfæra.

Einnig þarf að huga að þessu þegar auglýst er eftir starfsfólki. Áður var algengt að sjá í atvinnuauglýsingum að konur og karlar væru hvött til að sækja um, en nú er eðlilegt að hvetja fólk af öllum kynjum til að sækja um.

Lögin gera ráð fyrir því að kynin séu ekki tæmandi talin þar sem fólk fær sjálft að skilgreina sitt kyn, en lagaskyldan er þó uppfyllt með því að gera ráð fyrir þriðja flokki sem kallast í lögunum hlutlaus. Þjóðskrá hefur ákveðið, í samvinnu við Samtökin 78, að einstaklingar sem óska eftir hlutlausri skráningu séu skráðir sem „kynsegin/annað“ í Þjóðskrá. Talið var að um þetta heiti mætti ná sem mestri sátt innan hinsegin samfélagsins og að flestir einstaklingar geti samsamað sig því.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?