Trúnaðarmenn gæta réttinda starfsmanna

Fróðleikur
Trúnaðarmenn gegna mikilvægu hlutverki á vinnustöðum.

Trúnaðarmenn gegna mikilvægu hlutverki á sínum vinnustað, bæði gagnvart starfsmönnum og atvinnurekanda en einnig gagnvart viðkomandi stéttarfélagi. Trúnaðarmenn eru kosnir af félagsmönnum á vinnustað og eru tengiliður milli félagsmanna á vinnustaðnum og atvinnurekanda annars vegar og milli félagsmanns og stéttarfélagsins hins vegar.

Trúnaðarmenn hafa margvíslegt hlutverk en innan þeirra verkahring er meðal annars að gæta þess að samningar milli atvinnurekanda og starfsmanns séu virtir og að ekki sé gengið á rétt starfsmanna.

Starfsmenn geta leitað til trúnaðarmanns og gert honum grein fyrir kvörtunum eða atriðum sem þeir telja ekki vera í lagi á vinnustaðnum. Trúnaðarmaður hefur einnig frumkvæðisskyldu til þess að rannsaka atvik sem hann tekur eftir og getur trúnaðarmaður gert kröfu um að atvinnurekandi bæti úr slíkum málum, þegar tilefni er til.

Trúnaðarmenn njóta að nokkru leyti verndar gegn uppsögn úr starfi. Verndin er til þess að tryggja að trúnaðarmaður geti sinnt sínu starfi og sínum skyldum án þess að eiga á hættu að missa starf sitt vegna þeirra. Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast trúnaðarmannastarfinu en ekki daglegra starfa hans á vinnustaðnum. Ef atvinnurekandi þarf að fækka starfsfólki skal trúnaðarmaður jafnframt sitja fyrir um að halda sínu starfi.

Samkvæmt samkomulagi um trúnaðarmenn er trúnaðarmönnum tryggð þau mikilvægu réttindi að geta sótt málþing, fundi, ráðstefnur og námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglubundnum launum. Þannig geta trúnaðarmenn til dæmis sótt fræðslunámskeið á vinnutíma og bætt við sína þekkingu á vinnurétti. Dæmi um slík námskeið er trúnaðarmannanám Félagsmálaskóla Alþýðu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?