12 mánaða fæðingarorlof – framfaraskref fyrir börn og foreldra

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB, Drífa Snædal forseti ASÍ og Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM.

Fæðingarorlofskerfið tryggir rétt foreldra á vinnumarkaði til launagreiðslna við fæðingu, ættleiðingu barns eða töku barns í fóstur. Því var komið á fót árið 2001 með yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þá var brotið í blað með því að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og það lengt úr tveimur vikum í þrjá mánuði. Þar með skipaði Ísland sér í fremstu röð í jafnréttisbaráttunni. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér heldur náðist þessi áfangi eftir áratuga baráttu kvennahreyfingarinnar, stjórnmálafólks og stéttarfélaga launafólks.

Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin ætli að lengja fæðingarorlof úr 10 mánuðum í 12 mánuði og tryggja betur rétt einstæðra foreldra, enda hluti af yfirlýsingu sem gefin var í tengslum við kjarasamninga. Frumvarp þessa efnis hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og næsta skref er að félags- og barnamálaráðherra leggi það fyrir Alþingi til afgreiðslu. Lenging fæðingarorlofs er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að brúa bilið á milli orlofsins og leikskólagöngu barna. Mikilvægt er að sveitarfélögin fylgi í kjölfarið og tryggi börnum dagvistun frá 12 mánaða aldri.

Umönnun beggja foreldra

Í frumvarpinu er lagt til að foreldrar fái jafnan rétt til fæðingarorlofs, sex mánuði hvort foreldri. Heimilt verður að framselja einn mánuð, þannig að annað foreldri geti tekið sjö mánuði en hitt fimm. Þetta fyrirkomulag er ekki úr lausu lofti gripið heldur er það byggt á ítarlegum rannsóknum sem hafa sýnt að það er börnum fyrir bestu að njóta umönnunar beggja foreldra á þessu mikilvæga mótunarskeiði. Samvera í fæðingarorlofi leggur grunn að nánum tengslum og samskiptum barna við báða foreldra sína ævilangt og styrkir þannig fjölskyldur og samfélag.

Fjölmargir feður sem vilja taka meira en þriggja mánaða fæðingarorlof mæta skilningsleysi á sínum vinnustað. Það þykir eðlilegt að konur séu lengur heima en karlar þó að bæði kyn geti vel sinnt börnunum. Þessu viðhorfi þarf að breyta.

Óbirtar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn meðal foreldra á Íslandi sýna að ekki eru tengsl á milli þess hvenær mæður fara aftur til vinnu eftir barnsburð og þess hve lengi þær eru með barn sitt á brjósti né er það sjálfgefið að konur geti eða vilji hafa börn sín á brjósti. Áhersla á tengingu brjóstagjafar við lengd fæðingarorlofs liggur því ekki í augum uppi.

Úr viðjum vanans

Að jafnaði eru konur fjórum til fimm sinnum lengur frá vinnu en karlar vegna barneigna. Þetta er ein af ástæðum þess að konur hafa lægri laun en karlar og minni möguleika á starfsframa, auk þess sem þær ávinna sér minni lífeyrisréttindi yfir starfsævina en þeir. Gleymum því heldur ekki að efnahagsleg staða mæðra hefur bein áhrif á lífsgæði barna þeirra.

Markmið fæðingarorlofkerfisins er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og jafnrétti kynjanna í samfélaginu. Kerfið á að stuðla að því að barn myndi jafn sterk tengsl við báða foreldra en það er lykillinn að því að jafna ábyrgð foreldra og gera báðum kleift að sameina atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf. Með því að jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs er einnig stuðlað að því að fjarvera karla og kvenna frá vinnumarkaði vegna barneigna verði álíka löng og áhrifin þau sömu heima og heiman.

Nú reynir á hvort við séum föst í viðjum vanans eða hvort tími sé kominn til að brjótast úr þeim og tryggja börnum samvistir og umönnun beggja foreldra á mikilvægasta mótunarskeiði þeirra.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Drífa Snædal, forseti ASÍ
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?