20% geta hugsað sér að færa sig á leigumarkað

Samkvæmt kjarakönnun BSRB telja 26,5% félagsmanna það líklegt að þeir myndu velja að leigja húsnæði til frambúðar frekar en að kaupa ef búseta þeirra væri tryggð í leiguhúsnæðinu. Það verður að teljast dágóður fjöldi þegar staðreyndin er sú að tæplega 85% félagsmanna BSRB búa í eigin húsnæði í dag

Þegar hópurinn sem í dag býr í eigin húsnæði er skoðaður sérstaklega, m.t.t. hvort fólk gæti hugsað sér að leigja húsnæði til frambúðar frekar en að kaupa ef búseta þeirra væri tryggð, sést að 21% þeirra gætu hugsað sér að færa sig yfir á leigumarkaðinn. Samkvæmt þessu gæti því rúmlega fimmtungur þeirra sem í dag eiga sitt húsnæði vel hugsað sér að vera frekar á leigumarkaði að því gefnu að búseta þeirra væri tryggð til frambúðar í leiguhúsnæðinu.

„Nú þegar er framboð á leiguhúsnæði ekki nærri nógu mikið til að anna eftirspurn, leiguverð er gríðarlega hátt og mjög margir eru í vandræðum með að finna sér húsnæði. Þessar niðurstöður könnunar BSRB sýna okkur svo að eftirspurnin getur náð langt út fyrir þann hóp sem þegar er á leigumarkaði eða er að flytjast úr foreldrahúsum,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB.

„Góður hluti þeirra sem eru á eignarmarkaðnum í dag gæti vel hugsað sér að færa sig á leigumarkaðinn. Allt þetta sýnir okkur að mikilla úrbóta er þörf í húsnæðismálum á Íslandi, það verður að efla leigumarkaðinn og bæði ríki og sveitarfélög verða að koma að þeirri þróun í ríkara mæli,“ segir Elín Björg sem fagnar því að loksins virðist vera að komast hreyfing á þessi mál hjá stjórnvöldum.

„Félagsmálaráðherra hefur verið að viðra þær skoðanir sínar að ríkið verði að koma að uppbyggingu leigufélaga til að fjölga leiguíbúðum. BSRB er vitanlega mjög ánægt með að ráðherra skuli sína málinu svona mikinn áhuga og að hún vilji vinna þetta í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Í umræðum á Alþingi í vikunni lýstu fulltrúar allra flokka því yfir að brýn þörf væri á úrbótum á leigumarkaði þannig að ég er bjartsýn á að samstaða náist um aðgerðir til að bregðast við stöðunni á húsleigumarkaðnum,“ segir Elín Björg og bætir við að sveitarfélög verði líka að koma að málunum.

„Reykjavíkurborg hefur sýnt vilja til að auka framboð leiguíbúða hjá borginni og m.a. samþykkt nýja húsnæðisstefnu með áherslu á leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir til þess aukna fjölbreytni. Kópavogsbær samþykkti svo nýverið að skoða mögulegan á því að ívilna þeim sem hyggist kaupa lóðir til bygginga leiguíbúða og fleiri aðgerða í þessum anda er þörf til að hægt sé að leysa þennan  mikla vanda á leigumarkaðnum. Ef ekkert verður að gert mun vandinn bara magnast,“ segir Elín Björg. Hún leggur líka áherslu á að jafna opinberan stuðning við þá sem eiga sitt húsnæði og þá sem leigja.

„BSRB hefur lengi talað fyrir því að koma á samræmdum húsnæðisbótum í stað vaxta- og húsaleigubótanna og tekið var undir þau sjónarmið í skýrslu samráðshóps um húsnæðisstefnu árið 2011. Þannig yrði jafnaður húsnæðisstuðningur milli ólíkra búsetuforma sem myndi frekar stuðla að því að heimili eigi raunverulegt val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða. Þessi aðgerð gæti skipt sköpum í þegar kemur að því að leysa vandann á húsnæðismarkaði.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?