Áætlanir um leiguverð íbúða Bjargs íbúðafélags

Breiðfylking úr verkalýðshreyfingunni tók fyrstu skóflustunguna að íbúðakjarna Bjargs á Móavegi í Grafarvogi í febrúar.

Bjarg íbúðafélag hefur nú birt áætlað leiguverð í íbúðum félagsins á Móavegi í Grafarvogi, Urðarbrunni í Úlfarsárdal og á Akranesi. Félagið er sjálfseignarstofnun sem BSRB og ASÍ stofnuðu til að tryggja tekjulágum félögum öruggt leiguhúsnæði í langtímaleigu. Bjarg er rekið án hagnaðarsjónarmiða.

Stefnt er á að byggja um 1.400 leiguíbúðir á næstu fjórum árum. Nú þegar eru tæplega 240 íbúðir í byggingu og 430 til viðbótar í hönnunarferli. Stefnt er á að fyrstu íbúðirnar verði afhentar um mitt næsta ár.

Sérfræðingar Bjargs hafa gert áætlanir fyrir leiguverð fyrir íbúðir á Móavegi, Urðarbrunni og Akranesi, að því er fram kemur í frétt á vef félagsins. Áætlun um leigu miðast við verðlag 2018 og áætlanir félagsins um byggingakostnað, vaxtakostnað og kostnað vegna rekstur fasteignanna.

Leiguverð verður gefið út þegar íbúðir verða fullbúnar og mun það taka mið af endanlegum byggingarkostnaði. Vextir á langtímafjármögnun mun einnig hafa mikil áhrif á leiguverð en fjármagnskostnaður mun ekki liggja fyrir fyrr en íbúðir fara í leigu. Félagið mun á líftíma eignanna stöðugt leitast við að lágmarka vaxta- og rekstarakostnað og mun skila öllum ávinning til leigutaka.

Við hönnun íbúða Bjargs var leitast við að ná góðri nýtingu á íbúðarfermetrum og með færri fermetrum getur félagið boðið lægra heildarleiguverð til leigutaka. Það er meðal annars gert með því að nýta ný ákvæði í byggingareglugerð varðandi stærðir rýma og útfærslur á geymslum. Stefnt er á að allir fermetrar nýtist og séu innan íbúðar en liggi ekki að hluta til í geymslum í kjallara eins og algengt er. Meðalstærð tveggja herbergja íbúðar er um 45 fermetrar, þriggja herbergja íbúð er um 70 fermetrar og fjögurra herbergja íbúð um 85 fermetrar.

Greiðslubyrði um 55 þúsund fyrir tvö herbergi

Leiguverð eigna félagsins verður misjafnt eftir staðsetningu en þar hefur lóðaverð töluverð áhrif ásamt skipulagsskilmálum og þá hvernig þeir styðja við byggingu hagkvæms húsnæðis.

  • Áætlað leiguverð tveggja herbergja íbúðar er frá 96 þúsund til 130 þúsund miðað við rekstrarforsendur og verðlag 2018. Greiðslubyrði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 55 þúsund krónum fyrir einstakling þegar tekið hefur verið tillit til húsnæðisbóta.
  • Áætlað leiguverð þriggja herbergja íbúðar er frá 128 þúsund til 169 þúsund miðað við rekstrarforsendur og verðlag 2018. Greiðslubyrði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 90 þúsund krónum fyrir hjón eða par með eitt barn þegar tekið hefur verið tillit til húsnæðisbóta.
  • Áætlað leiguverð fjögurra herbergja íbúðar er frá 146 þúsund til 200 þúsund miðað við rekstrarforsendur og verðlag 2018. Greiðslubyrði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 99 þúsund krónur fyrir hjón eða par með tvö börn þegar tekið hefur verið tillit til húsnæðisbóta.
  • Bjarg mun einnig bjóða studíó íbúðir og mun leiguverð verða um 15 prósent lægra en leiguverð tveggja herbergja íbúða. Það fer þó eftir stærð íbúða sem getur verið misjöfn eftir verkefnum.
  • Þá mun félagið bjóða fimm herbergja íbúðir sem verða um 100 fermetrar að stærð. Áætlað leiguverð þeirra verður um 12 prósent hærra en leiguverð fjögurra herbergja íbúða. Ljóst að greiðslubyrgði fimm herbergja íbúða verður hlutfallslega hærra en smærri íbúða að teknu tilliti til húsnæðisbóta þar sem núverandi reglugerð gerir að hámarki ráð fyrir fjórum heimilismönnum.
Tvö skref til að sækja um

Opið er fyrir skráningu á biðlista hjá Bjargi og fer hún fram rafrænt á vef félagsins. Áhugasamir skrá sig á biðlista óháð því hvaða eign er verið að sækja um. Þeir sem skrá sig fyrir lok júlí fara í pott sem verður dregið úr um númer á listanum. Eftir þann tíma fá umsækjendur númer í þeirri röð sem skráningar berast.

Íbúðir verða auglýstar til leigu í áföngum og mun þá verða hægt að sækja um ákveðnar staðsetningar. Staða á biðlista ræður til um úthlutun.

Nánari upplýsingar má finna á vef Bjargs íbúðafélags.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?