Aðalfundur BSRB í beinni á vefnum

Aðalfundur BSRB fer fram frá kl. 10-14:45 í dag föstudaginn 16. maí 2014 að Grettisgötu 89. Hægt er að fylgjast með fundinum á vef BSRB og upplýsingar um það má finna hér að neðan. 

Fyrir hádegi verða flutt tvö erindi sem eru opin fjölmiðlum og öðrum sem áhuga hafa. Fyrra erindið flytur Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ, og ber það yfirskriftina „Staða og framtíð félagslegrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi“. Þar mun Rúnar m.a. kynna rannsóknir sínar á kostnaði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem er að hluta unnin upp úr gögnum heilbrigðiskönnunarinnar Heilbrigði og lífskjör Íslendinga.

Fyrri rannsóknir Rúnars, t.d. um „Notkun og áhrif afsláttarkorta í íslensku heilbrigðisþjónustunni“ og „Aðgengi að heilbrigðisþjónustu á Íslandi“ vöktu talsverða athygli þegar fyrstu niðurstöður þeirra voru birtar og munu nýjustu rannsóknir hans væntanlega varpa enn betra ljósi á hver greiðsluþátttaka almennings vegna heilbrigðisþjónustu er, hversu íþyngjandi hún kann að vera fyrir fólk, hver þróunin í þeim málaflokkum hefur verið síðustu ár og hvert við stefnum á næstu árum miðað við núverandi heilbrigðisstefnu stjórnvalda.

Síðara erindið flytur Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, og ber yfirskriftina „Uppbygging lífeyrissparnaðar“. Eins og áður segir er fjölmiðlum og öðrum sem áhuga hafa frjálst að mæta og hlýða á erindin en að þeim loknum munu fyrirlesarar svara spurningum gesta.

Til að fylgjast með aðalfundinum á vefnum þarf að:

  • Fara á slóðina straumur.bsrb.is.
  • Nota þarf aðgangsorðið bsrb og lykilorðið er sömuleiðis bsrb.
  • Þegar inn á síðuna er komið þarf að velja valmöguleikan "live streaming" vinstra megin á síðunni.
  • Það er þó takmarkaður fjöldi sem getur tengst streyminu.

 

ATH - Best er að nota heyrnartól þar sem hljóðið í gegnum fjarfundarbúnaðinn getur verið á mjög lágum styrk.

 


Dagskrá aðalfundar BSRB

 

kl. 10:00                Ávarp formanns Elín Björg Jónsdóttir

kl. 10:15                Staða og framtíð félagslegrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi Rúnar Vilhjálmsson prófessor við HÍ

kl. 11:30                Uppbygging lífeyrissparnaðar Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri LL

kl. 12:30                Matarhlé

kl. 13:00                Aðalfundarstörf


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?