Aðalmarkmiðið að verja kaupmátt fólks

Sonja Ýr í viðtali við RÚV

Aðildarfélög BSRB náðu samkomulagi um launahækkanir og kjarabætur við ríki og borg þann 30. mars. Undirritunum samninga lýkur í dag.

Samningarnir verða nú kynntir og í kjölfarið greidd um þá atkvæði. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að helsta markmiðið með samningunum, sem eru skammtímasamningar, hafi verið að verja kaupmátt þeirra félaga sem samningarnir ná til í viðtali við RÚV:

„Aðalmarkmiðið með þessum samningum var að verja kaupmátt okkar fólks. En fljótlega þurfum við að undirbúa gerð næstu kjarasamninga sem verða þá langtímasamningar. Það voru bara fá og einföld atriði undir núna, þá helst launaliðurinn, en það mun koma til fleiri atriða í næstu kjarasamningum.“

Sonja segir að stjórnvöld verði að koma meira til móts við launafólk í baráttu þess við verðbólgu.

„Ríkisstjórnin hefur auðvitað tekið ákveðin skref varðandi barnabæturnar sem við teljum jákvætt en of lítið skref í ljósi aðstæðna. Það þarf að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu og fara í saumana á húsnæðisstuðningskerfinu líka.“ segir Sonja.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?