Aðgangur að drykkjarvatni sjálfsögð mannréttindi

Á Íslandi erum við vön því að hafa nóg af hreinu vatni en staðan er önnur víða í heiminum.

Af og til berast tilmæli um að sjóða þurfi neysluvatn í ákveðnum sveitarfélögum, eða í ákveðnum hverfum höfuðborgarinnar. Aðra daga hugsum við lítið um hversu mikilvæg grundvallarmannréttindi það eru að hafa aðgang að hreinu og góðu drykkjarvatni.

Í dag, á alþjóðlegum degi vatnsins, er ágætt að rifja upp þá stefnu BSRB að aðgang að drykkjarvatni eigi að skilgreina sem mannréttindi og að eignarhald á vatni skuli vera samfélagslegt. Ákvæði þar um telur bandalagið mikilvægt að binda í stjórnarskrá.

Þó nóg sé af hreinu vatni til drykkjar á Íslandi er það áhyggjuefni að annarsstaðar í heiminum sé í síauknum mæli litið á vatn eins og hverja aðra verslunarvöru. Aðgangur að vatni er grundvallarþörf alls mannkynsins en ekki gæði sem fara má með eins og hverja aðra neysluvöru sem hægt er að selja dýrum dómum.

BSRB vill taka þátt í baráttu systursamtaka bandalagsins á heimsvísu gegn einkavæðingu vatnsveita. Gegn slíkri þróun þarf að sporna enda eiga vatnsveitur að vera reknar á félagslegum grunni þar sem tekið er mið af almannahagsmunum og réttur einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði.

Sífellt fleiri geta ekki greitt fyrir vatn

Eins og bent er á í frétt á vef EPSU, evrópskra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, fjölgar þeim stöðugt sem eiga í erfiðleikum með að greiða fyrir aðgang að vatni í Evrópu. Dæmi eru um að stjórnvöld í Evrópuríkjum hafi notað þörf fyrir niðurskurð í opinberum rekstri til að einkavæða mikilvæga þjónustu eins og vatnsveitur. BSRB, sem á aðild að EPSU, mun berjast áfram fyrir því að réttur almennings til að hafa góðan aðgang að vatni verði fest með skýrum hætti í lög Evrópusambandsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?