Áformaðar bónusgreiðslur óásættanlegar

Fyrirhugaðar greiðslur Kaupþings á gríðarháum bónusum til nokkurra starfsmanna eru óásættanlegar og eiga ekki við í íslensku samfélagi að mati BSRB. Bandalagið skorar á Alþingi að bregðast við og tryggja að skattaumhverfi hér á landi sé þannig að þeir sem hafa háar tekjur greiði ríflega til samfélagsins.

„Við verðum að læra af þeim mistökum sem gerð voru á árunum fyrir hrun. Ein af þeim mistökum voru að greiða þeim sem sýsla með fjármuni gríðarháar upphæðir í skjóli þess að þeir bæru svo gríðarlega mikla ábyrgð. Þegar spilaborgin hrundi fór lítið fyrir þeirri ábyrgð og þeir sem fengu svo ríkulega bónusa ypptu öxlum og voru stikkfríir,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Alþingi hefur þegar sett ramma sem skráðum fyrirtækjum ber að fara eftir telji þau nauðsynlegt að nota bónusa til að umbuna sínum starfsmönnum. Að mati BSRB er sá rammi óþarflega rúmur. Eigi að síður fara fyrirhugaðar greiðslur Kaupþings langt út fyrir þann víða ramma og minna óneitanlega á það ástand sem var hér á landi á árunum fyrir hrun haustið 2008.

Hverjir bera ábyrgð?

„Við eigum að draga lærdóm af hruninu. Þeir sem sýsla með peninga bera vissulega ábyrgð, en það gera fleiri í okkar samfélagi. Við sem samfélag hljótum að vera sammála um að þeir sem sinna almannaþjónustunni og annast börnin okkar og menntun þeirra, heilbrigðisstarfsfólk, lögreglumenn, slökkviliðsmenn og aðrir sem sannarlega bera mikla ábyrgð í sínum störfum eigi frekar skilið umbun en þeir sem vinna við að kaupa og selja hlutabréf,“ segir Elín Björg.

„Það má vera að Kaupþing falli ekki undir lög sem Alþingi setti um bónusgreiðslur fyrirtækja. Væri stjórnendum fyrirtækisins umhugað um samfélagslega ábyrgð myndu þeir engu að síður halda sig við þann rúma ramma sem þar er markaður. Kjósi þeir að gera það ekki ætti Alþingi að bregðast við.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?