Áfram raunfærnimat hjá Starfsmennt og Keili

Raunfærnimat styttir leiðina að lokaprófi.

Þar sem vel tókst til með raunfærnimat sem Fræðslusetrið starfsmennt og Keilir buðu upp á síðasta vor verður aftur boðið upp á raunfærnimat nú í haust. Félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem standast raunfærnimatið geta stytt leiðina til lokaprófs af háskólabrú Keilis.

Umsækjendur þurfa að vera 23 ára eða eldri með samtals þriggja ára starfsreynslu af vinnumarkaði. Þá þurfa þeir að hafa lokið að lágmarki 70 einingum í framhaldsskóla til að geta farið í raunfærnimatið.

Kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 11. október klukkan 17:00 hjá Starfsmennt í Skipholti 50b í Reykjavík. Aðgangur að fundinum er öllum opinn en skrá verður þátttöku fyrirfram á vef Starfsmenntar.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og með styrk úr Fræðslusjóði og er raunfærnimatið þátttakendum að kostnaðarlausu.

Reynslan nýtt

Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir þá sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Að námi loknu uppfylla nemendur inntökuskilyrði í allar deildir Háskóla Íslands. Þá hafa útskrifaðir nemendur fengið inngöngu í nám í öðrum háskólum hér á landi og erlendis. Fyrir þá sem hafa áhuga á námi við Háskólabrúnna er mikilvægast að hafa lokið sex einingum í íslensku, ensku og stærðfræði.

Markmiðið með raunfærnimati er að fólk fái viðurkennt þá færni sem það býr yfir þrátt fyrir að hafa ekki sótt formlegt nám, enda fer nám ekki eingöngu fram innan veggja skóla heldur við ýmsar aðstæður í lífinu. Hægt er að fá nánari upplýsingar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og á vefnum Næsta skref. Þá má fá frekari upplýsingar um samstarf Starfsmenntar og Keilis hjá Starfsmennt.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?