Afturvirkar greiðslur geta haft áhrif á bætur

Þeir sem þiggja greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eða atvinnuleysistryggingasjóði og fengu afturvirka launahækkun gætu þurft að hafa samband við Vinnumálastofnun.

Afturvirk hækkun á launum vegna launaþróunartryggingar getur haft áhrif á atvinnuleysisbætur og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Félagar í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá ríkinu fengu 1,3 prósenta launahækkun afturvirkt frá 1. janúar 2017 vegna launaþróunartryggingar. Félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum fá 1,4 prósenta hækkun afturvirkt frá 1. janúar 2018. Þessar hækkanir koma til viðbótar við samningsbundnar hækkanir.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun geta afturvirkar greiðslur haft áhrif á atvinnuleysisbætur. Þeir sem eiga rétt á slíkum afturvirkum greiðslum og fá greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði þurfa því að hafa samband við Vinnumálastofnun og staðfesta að greiðslurnar séu til komnar vegna þess tíma sem viðkomandi var við störf hjá hinu opinbera. Sé það gert, til dæmis með því að senda launaseðil í gegnum mínar síður, mun eingreiðsla á launum frá því viðkomandi var við störf ekki hafa áhrif á bæturnar.

Þeir sem eiga rétt á launahækkunum afturvirkt og eru í fæðingarorlofi þurfa ekki að láta Fæðingarorlofssjóð vita af því sérstaklega. Ef greiðslurnar koma inn á það tímabil sem notað er til grundvallar við að reikna út greiðslur í fæðingarorlofi kann þó að koma til að greiðslurnar hækki eitthvað. Sé sú staða uppi er nauðsynlegt að senda Fæðingarorlofssjóði sundurliðun á greiðslunum. Starfsmenn sjóðsins munu þá uppfæra upphæðir sem liggja til grundvallar greiðslum og greiða út það sem við bætist vegna þessa.

Við hvetjum alla sem fengið hafa afturvirkar hækkanir vegna launaþróunartryggingarinnar, eða munu fá þær á næstunni, að gæta vel að greiðslum úr atvinnuleysistryggingasjóði eða fæðingarorlofssjóði, ef við á. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Vinnumálastofnun.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?