Áhugasamir sæki um hjá Bjargi fyrir lok júlí

Bjarg byggir nú í Reykjavík en fyrirhugað er að byggja upp víða um land.

Fjölmargar umsóknir hafa þegar borist Bjargi íbúðafélagi en opnað var fyrir umsóknir í maí. Mikilvægt er að þeir sem hafa ákveðið að sækja um íbúðir geri það fyrir lok júlí til að eiga sem bestan möguleika á að fá íbúð sem fyrst.

Bjarg íbúðafélag var stofnað af ASÍ og BSRB og hefur það að markmiði að byggja upp og leigja tekjulágum félögum aðildarfélaga þessara tveggja heildarsamtaka íbúðir á hagkvæmu verði. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Öllum umsóknum sem berast fyrir lok júlí verður safnað saman og verður dregið úr umsóknunum um sæti á biðlistanum í byrjun ágúst. Þeir sem sækja um eftir lok júlí fara svo á biðlistann í þeirri röð sem umsóknir berast.

Bjarg hefur þegar hafið framkvæmdir á tveimur lóðum í Reykjavík, í Spönginni og í Úlfarsárdal. Þá er hefur þegar verið ákveðið að byggja á Akureyri, Akranesi, Selfossi, Þorlákshöfn og í Sandgerði. Þeir sem búa í einhverjum þessara sveitarfélaga og vilja sækja um ættu því að gera sitt besta til að ljúka umsóknarferlinu fyrir lok júlí til að eiga möguleika á að lenda framarlega á listanum.

Þeir félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem hafa hug á að sækja um íbúð hjá Bjargi eru hvattir til að nota sér reiknivél á vef Bjargs og að skila inn umsókn fyrir lok júlí til að eiga sem mestan möguleika á að fá úthlutað íbúð sem fyrst.

Prófaðu reiknivélina og sendu inn umsókn á vef Bjargs íbúðafélags.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?