Áhugaverð erindi á fundi um áreitni

Þrjú fróðleg erindi um mismunandi hliðar á kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað voru flutt á fundi um málefnið á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í gær. Að fundinum stóðu, auk BSRB, ASÍ, BHM, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð.

Á fundinum var kynntur nýr netbæklingur sem kom út í gær. Þar er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar. Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.

Hægt er að nálgast bæklinginn hér.

Nýjar reglur hafa tekið gildi
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, fjallaði í erindi sínu um nýjar reglur sem gilda um málaflokkinn. Þær skylda til dæmis vinnuveitendur til að vernda starfsmenn fyrir áreiti af hendi þriðja aðila, til dæmis viðskiptavina. Einnig er komið inn nýtt ákvæði sem skyldar vinnuveitendur til að bregðast við til að tryggja góða líðan starfsmanna í kjölfar kvörtunar yfir áreiti, hvort sem niðurstaða athugunar er sú að um áreiti hafi verið að ræða eða ekki.

Mikill munur á áhrifum á kynin
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, fjallaði í erindi sínu meðal annars um áhrif kynferðislegrar áreitni á öryggistilfinningu þolenda. Hún vitnaði í rannsókn sem sýnir að áhrifin á kvenkyns þolendur eru mun meiri en á karlkyns þolendur. Um 45% kvenna sem orðið hafa fyrir áreitni af þessu tagi hafi upplifað mikil eða mjög mikil áhrif á öryggistilfinningu, en 0% karla í sömu rannsókn.

Óhjákvæmileg áreitni?
Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, ræddi hvort kynferðisleg áreitni sé óhjákvæmileg. Hún vitnaði í eigin rannsókn, þar sem fram kom að um helmingur þeirra lögreglumanna sem orðið hafa fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt hafi ekki tilkynnt um það því þeir hafi ekki talið árásina nægilega alvarlega.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?