Áhugaverð erindi í tilefni af baráttudegi kvenna

Boðið var upp á áhugaverð erindi á súpufundi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna í hádeginu í dag.

Alþjóðlegum baráttudegi kvenna var fagnað í dag, degi fyrr en venjulega, með hádegisfundi undir yfirskriftinni „Þegar konur segja frá - #metoo og kraftur samstöðunnar“.

Það voru BSRB, ASÍ, BHM, Kvenréttindafélag Íslands, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja sem boðuðu til fundarins. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er 8. mars ár hvert en fundurinn var haldinn í dag til að sýna samstöðu með félagskonum Eflingar sem eru á leið í verkfall á morgun til að leggja áherslu á kröfur um betri kjör.

Á fundinum fjallaði Hildur Knútsdóttir rithöfundur um hverjir breyta heiminum. Hún velti fyrir sér tungumálinu og hinu allsráðandi karlkyni, en velti líka fyrir sér hvernig konur eru að breyta heiminum án þess að það sé fjallað mikið um það.

Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, dósent á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, og Dr. Annadís Greta Rúdólfsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, fjölluðu um rannsókn sína á #metoo-sögum í erindi með yfirskriftina „Mun eitthvað breytast? Mun einhver trúa mér núna og vilja hlusta?“ Þær ætla sér að halda áfram rannsóknum á #metoo sögum íslenskra kvenna og verður áhugavert að sjá þeirra niðurstöður í framtíðinni.

Að lokum fjallaði Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur um viðhorfin sem hún hefur mætt sem rithöfundur í erindinu „Konur sem skálda“. Hún setti gagnrýni frá ýmsum körlum í skemmtilegt samhengi og velti fyrir sér hvers vegna það eru til svona fáar bækur og kvikmyndir um kvenkyns rithöfunda en svo margar um karlkyns kollega þeirra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?