Áhugaverð námskeið hjá Forystufræðslunni

Forysta og starfsfólk stéttarfélaga getur sótt sér ýmiskonar fræðslu hjá Forystufræðslu ASÍ og BSRB.

Forystufræðslu ASÍ og BSRB býður upp á þrjú spennandi námskeið fyrir stjórnir og starfsmenn stéttarfélaga hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt í haust. Á námskeiðunum verður fjallað um jafnlaunastaðalinn og jafnlaunavottun, um karphúsið og kjarasamninga og um starfsþrek og heilsueflingu.

Fyrsta námskeiðið verður um jafnlaunastaðalinn og jafnlaunavottun, en það verður haldið 20. september. Jafnlaunastaðallinn nýtist atvinnurekendum til að endurskoða launastefnu þannig að bæði þeir og starfsmenn þeirra geti treyst því að réttur kvenna og karla til launajafnréttis sé virtur. Á námskeiðinu verður farið yfir hugmyndafræði staðalsins og hagnýtar aðferðir til að jafna laun. Hægt verður að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Annað námskeiðið fjallar um karphúsið og kjarasamninga. Það fer fram 2. nóvember. Á námskeiðinu verður fjallað um ferilinn við gerð kjarasamninga, atkvæðagreiðslu og boðun verkfalla. Vikið verður að dómum þar sem lögmæti boðunar og framkvæmdar verkfalla hefur verið dregið í efa. Hægt verður að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Þriðja námskeiðið fer fram 17. nóvember, en þar verður fjallað um starfsþrek og heilsueflingu. Á námskeiðinu verður farið yfir áhættuþætti, þróun, einkenni og afleiðingar streitu í einkalífi og starfi. Þar verður einnig rætt um starfsþrot eða kulnun í starfi og viðbrögð við slíku.

Nánar er fjallað um námskeið Forystufræðslu ASÍ og BSRB á vef Starfsmenntar. Þar er jafnframt hægt að skrá sig á námskeiðin.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?