Álagsgreiðslur og stytting vinnuvikunnar á Írlandi

Bætt verður við almennum frídegi á Írlandi í ár til að heiðra starfsfólk fyrir framlög þess í heimsfaraldrinum.

Starfsfólk sem hefur verið í framlínunni í heimsfaraldrinum á Írlandi fær sérstakar 145 þúsund króna skattfrjálsar álagsgreiðslur auk þess sem vinnuvikan hjá starfsfólki hins opinbera verður stytt í 35 stundir.

Þeir sem eiga rétt á álagsgreiðslunum eru þeir sem unnið hafa í heilbrigðiskerfinu tengt faraldrinum, að því er fram kemur í frétt á vef EPSU – Evrópskra heildarsamtaka opinberra starfsmanna.

Þar kemur einnig fram að vinnuvika opinberra starfsmanna verður stytt á nýjan leik í 35 stundir frá 1. júlí næstkomandi. Þar með verður vinnutími hjá hinu opinbera á Írlandi kominn í sama horf og hann var fyrir árið 2013 þegar brugðist var við fjármálakreppunni sem hófst árið 2008 með því að falla frá styttingu vinnuvikunnar.

Bæði ákvörðun um álagsgreiðslur og styttingu vinnuvikunnar voru teknar að hluta til þar sem stjórnvöld vildu sýna í verki þakklæti í garð starfsfólks sem mikið hefur mætt á í heimsfaraldrinum. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að bæta við almennum frídegi til að heiðra starfsfólk fyrir þær fórnir sem það færði í faraldrinum, þann 18. mars næstkomandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?