Aldrei sátt um kaupaukagreiðslur

Aldrei verður sátt um það í íslensku samfélagi að lítill hópur einstaklinga fái háar kaupaukagreiðslur eins og tíðkuðust fyrir bankahrunið 2008 að mati formannaráðs BSRB. Í ályktun frá ráðinu er skorað á íslensk fyrir tæki að sýna samfélagslega ábyrgð og hverfa ekki aftur til þess verklags sem átti þátt í hversu illa fór fyrir íslensku samfélagi í hruninu.

Í ályktun formannaráðs BSRB segir að það hafi verið meinsemd í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun að greiða þeim sem sýslað hafi með fjármuni griðarháa kaupauka sem sjaldnast hafi verið í samræmi við vinnuframlag. Þar er bent á að fleiri hópar beri ábyrgð í íslensku samfélagi en þeir sem kaupi og selji hlutabréf, til dæmis þeir sem sinni almannaþjónustunni. Nær væri að bæta kjör þeirra hópa.

Stjórnvöld hafa sett ákveðinn ramma um kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja, sem mega í dag ekki nema meiru en sem nemur 25 prósentum af árslaunum starfsmanns. Formannaráð BSRB fagnar því að rammi hafi verið settur, þó hann sé óþarflega víður.

Fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð

„Ráðið telur að fyrirtæki sem ekki falla undir þessi lög ættu engu að síður að sýna samfélagslega ábyrgð með því að líta til þess ramma sem þar er markaður og ganga ekki lengra en þar er gert ráð fyrir í kaupaukagreiðslum. Þannig geta þau sýnt að hér á landi býr ein þjóð sem deilir kjörum, þar sem allir greiða til samfélagsins til að viðhalda því velferðarkerfi sem við viljum öll búa við,“ segir í ályktun formannaráðs BSRB.

Smelltu hér til að lesa ályktunina í heild sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?