Algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum

Lesa má ítarlegt viðtal við Sonju Ýr Þorbergsdóttur, lögfræðing BSRB, í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Það er mjög algengt að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, í forsíðuviðtali við Mannlíf í dag.

Sonja segir að BSRB hafi ekki fengið mjög mörg mál til umfjöllunar, en það geti helgast af því að fólk hafi ekki vitneskju um hvert það geti leitað. Hún segir eitt af verstu málunum sem hún hafi fengið til umfjöllunar vera mál konu sem birt hafi frásögn sína í #metoo-yfirlýsingu kvenna í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði síðastliðinn vetur. Þar lýsti hún kynferðislegri áreitni sem hún hafði orðið fyrir á vinnustað sínum.

„Það sem var óvanalegt við þetta mál var að gerendurnir voru samtals fjórir og yfirmaðurinn brást ekki við kvörtunum hennar. Eftir að hún birti sögu sína fór ferli í gang á vinnustaðnum þar sem átti að bregðast við, að því er hún hélt,“ segir Sonja í viðtali við Mannlíf. „Það var sett af stað fræðsla um kynferðislega áreitni og hún fékk þær upplýsingar að viðkomandi gerendur hefðu verið áminntir, en vinnuaðstæður hennar breyttust samt ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða til þess að auðvelda henni að koma til baka.“

Hún segir að eftir að konan hafi leitað til BSRB hafi verið reynt að ná fram breytingum á margra mánaða tímabili án þess að það hafi tekist. „Í kjölfarið samdi fyrirtækið við hana um starfslok, sem er því miður meginlína í svona málum. Svona mál enda oftar en ekki með því að þolandinn hættir á vinnustaðnum. Eins og kom mjög skýrt fram í #metoo-frásögnunum eru staðhæfingar um að meintir gerendur séu svo ómissandi á vinnustaðnum að það sé ekki hægt að láta þá fara, mjög algeng viðbrögð við kvörtunum um kynferðislega áreitni,“ sagði Sonja.

Lestu viðtalið í nýju tölublaði Mannlífs, sem dreift er með Fréttablaðinu alla föstudaga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?