Allir hafi jafnan aðgang í heilbrigðiskerfinu

Mun hærra hlutfall Íslendinga sleppir því að fara til læknis eða tannlæknis en þekkist í öðrum Evrópulöndum samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands.

Alls höfðu fjórar af hverjum 100 konum og tveir af hverjum 100 körlum neitað sér um þjónustu læknis eða sérfræðings á árinu 2015 vegna kostnaðar. Alls eru þetta um átta þúsund manns. Þetta þýðir að um þrjú prósent þjóðarinnar fór ekki til læknis vegna kostnaðar, sem er sjötta hæsta hlutfallið í Evrópu.

Eins og gefur að skilja er kostnaður meiri fyrirstaða hjá þeim sem hafa lægri tekjur. Þannig hafa um það bil sex af hverjum 100 í tekjulægsta fimmtungnum ekki til læknis vegna kostnaðar samanborið við um einn af hverjum 100 í efsta tekjufimmtungnum.

Einn af hverjum tíu ekki til tannlæknis

Þá áætlar Hagstofan að um 25 þúsund manns, eða tíundi hver fullorðinn Íslendingur, hafi á árinu 2015 sleppt nauðsynlegri heimsókn til tannlæknis vegna kostnaðar. Heldur fleiri konur hafa sleppt heimsókn til tannlæknisins, um 14 þúsund samanborið við 11 þúsund karla.

Rúmlega sjötti hver Íslendingur í lægsta tekjufimmtungnum, um sautján prósent, hafði þannig sleppt því að fara til tannlæknis vegna kostnaðar á síðasta ári samanborið við fjögur prósent fólks í tekjuhæsta fimmtungnum.

Áhugavert verður að sjá hvernig þessar tölur breytast eftir að þak á kostnað fólks í heilbrigðiskerfinu verður komið til framkvæmda. Ljóst er að við þetta ástand verður ekki unað enda er jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, eitt af því sem stuðlar að auknum jöfnuði fólks.

Ekki fjallað um kostnað við lyfjakaup

Í þeirri stefnu sem þing BSRB mótaði haustið 2015 er sérstaklega fjallað um heilbrigðismál og lögð áhersla áð að dregið verði úr gjaldtöku innan heilbrigðiskerfisins. „Heilbrigðiskerfi Íslendinga á að veita hverjum sem þarf á aðstoð að halda alla þá þjónustu sem völ er á án tilkostnaðar fyrir viðkomandi,“ segir í stefnu bandalagsins.

Í tölum Hagstofunnar er ekki fjallað um annan stóran kostnaðarþáttinn sem lendir á sjúklingum, kostnað við lyfjakaup. Það ætti að vera sjálfsögð réttindi að hafa aðgang að nauðsynlegum lyfjum án tilkostnaðar sjúklingsins.

Ríkinu ber að halda úti heilbrigðiskerfi sem rekið er á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna. Tölur Hagstofu Íslands benda svo sannarlega til þess að það sé ekki staðan í dag.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?