Almenningur standi vörð um heilbrigðiskerfið

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu í dag.

Almenningur þarf að halda vöku sinni nú þegar heilbrigðisráðherra er í þann mund að fara að taka ákvörðun um hvort ganga eigi lengra í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en gert hefur verið hér á landi hingað til, sagði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur í sjónvarpsþættinum Silfrinu fyrr í dag.

Í þættinum var fjallað um einkarekna heilbrigðisfyrirtækið Klíníkina, sem bíður þess nú að heilbrigðisráðherra ákveði hvort fyrirtækið fái að opna legudeild. Samþykki ráðherra að veita leyfið eru íslensk stjórnvöld í raun að samþykkja fjármálavæðingu íslenskrar heilbrigðisþjónustu, sagði Sigurbjörg.

Hún sagði stóran mun á einkareknum fyrirtækjum sem rekin séu með hagnaðarsjónarmið í huga og þeim sem ekki séu rekin í hagnaðarskyni. Í tilviki Klíníkurinnar eigi til dæmis sjávarútvegsfyrirtæki sem greiði sér arð af auðlind þjóðarinnar og noti hann til að kaupa hlut í heilbrigðiskerfinu. Fjárfestar sem leggi fé í heilbrigðisfyrirtæki vilji greiða sér arð af sinni fjárfestingu.

„Rannsóknir sýna að almenningi er umhugað um þetta kerfi verði áfram fjármagnað úr opinberum sjóðum,“ sagði Sigurbjörg. Hún sagði hlutfall þeirra sem það vilja vera um 90 prósent, og litlu færri vilji að heilbrigðisþjónustan sé veitt af opinberum stofnunum að mestu.

Má ekki raska lögbundinni þjónustu

Sigurbjörg sagði skýrt í lögum að við val á viðsemjendum um heilbrigðisþjónustu skuli gæta þess að raska ekki þeirri þjónustu sem veita beri samkvæmt lögum. Til þess hljóti ráðherra að horfa þegar hann taki ákvörðun.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, er einn þeirra sem varað hefur við því að Klíníkin fái leyfi til að reka legudeild. Hann bendir á, í nýlegum pistli á vef spítalans, að sú þróun myndi án efa grafa undan rekstri Landspítalans.

„Yrði af þessum tilteknu áformum þá myndi það ekki einfalda eða létta undir með rekstri Landspítala, eins og fram er haldið, heldur trufla hann,“ skrifar Páll. Einkasjúkrahúsið geti grafið undan fámennri sérgrein bæklunarlækna. Þar sem Landspítalinn þurfi áfram að sinna flóknari aðgerðum yrði hann verr í stakk búinn til þess þar sem sérfræðigreinin yrði veikari á spítalanum.

Forysta BSRB fundaði með heilbrigðisráðherra

Áform um frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu ganga þvert gegn þeirri stefnu sem BSRB hefur talað fyrir árum og áratugum saman. Á fundi forystu BSRB með heilbrigðisráðherra nýverið var lögð þung áhersla á að ekki yrði af frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Ljóst er að mikill meirihluti Íslendinga, rúmlega fjórir af hverjum fimm samkvæmt nýlegri rannsókn, vilja að heilbrigðiskerfið sé fyrst og fremst rekið af hinu opinbera. Heilbrigðisráðherra bíður erfið ákvörðun en BSRB bindur vonir við að hann gangi ekki þvert gegn vilja þorra þjóðarinnar og stöðvi áform um frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?