Ályktun BSRB um kjaraviðræður við ríkið

Stjórn BSRB kom saman til fundar í dag og samþykkti þar ályktun vegna stöðunnar í viðræðum aðildarfélaga bandalagsins við samninganefnd ríkisins.    

Í ályktuninni segir m.a. að með nýjasta samningstilboði sínu sé ríkið að mismuna starfsfólki sínu eftir því hvaða stéttarfélagi það tilheyrir og að ríkið verði að ganga til samninga með hliðsjón af því sem gerðardómur taldi sanngjarnar kjarabætur fyrir aðra starfsmenn ríkisins.

Ályktun stjórnar BSRB má lesa í heild sinni hér að neðan.                                                                                   

 

Ályktun stjórnar BSRB vegna kjaraviðræðna við ríkið

Stjórn BSRB krefst þess að ríkið gangi þegar í stað frá kjarasamningum við starfsfólk sitt sem margt hefur verið með lausa samninga í rúmlega hálft ár. Það er sanngjörn og eðlileg krafa að ríkisstjórnin veiti samninganefnd sinni skýrt umboð til að klára samninga svo forða megi frekari röskun á þeirri mikilvægu almannaþjónustu sem starfsfólk ríkisins sinnir.

Eftir vinnustöðvanir og verkföll annarra félaga opinberra starfsmanna síðastliðið vor tók ríkisstjórnin ákvörðun um að setja lög á verkfall BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Við gildistöku þeirra laga tók Alþingi um leið samningsréttinn af umræddum félögum. Það var jafnframt ákvörðun ríkisins að fela gerðardómi að leiða kjaradeiluna til lykta.

Allt frá því að samningar losnuðu í lok febrúar og jafnvel eftir að gerðardómur kvað upp sinn úrskurð hefur samninganefnd ríkisins ekki sýnt af sér nokkurn vilja til að klára samninga við ríkisstarfsmenn í anda þess sem gerðardómur úrskurðaði að væri sanngjarnt. Ríkið setti kjaradeilu hluta starfsmanna sinna í gerðardóm þvert á vilja þeirra en vill svo ekki una niðurstöðu dómsins gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins, jafnvel þótt það starfsfólk starfi í mörgum tilfellum við hlið þeirra sem falla undir ákvörðun gerðardóms.

Þær kjarabætur sem ríkið hefur boðið aðildarfélögum BSRB eru langt frá þeim launahækkunum sem gerðardómur ákvað að væru sanngjarnar fyrir aðra ríkisstarfsmenn. Með nýjustu samningstilboðum sínum hefur ríkið sýnt því starfsfólki sínu sem enn er með lausa samninga mikla vanvirðingu og jafnframt sýnt af sér vilja til að mismuna starfsfólki sínu eftir því hvaða stéttarfélagi það tilheyrir.

Stjórn BSRB krefst þess að ríkið veiti samninganefnd sinni þegar í stað fullt umboð til að ganga til samninga við aðildarfélög BSRB þar sem mið verði tekið af úrskurði gerðardóms svo komast megi hjá frekari átökum á vinnumarkaði með tilheyrandi röskun á opinberri þjónustu.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?