Ályktun SLFÍ

Fjölmennur fundur Trúnaðarmannaráðs Sjúkraliðafélags Íslands ályktaði á fundi sínum í síðustu viku. Þar kom m.a. fram mikil gagnrýni á ítrekaðan niðurskurð til heilbrigðismála, gríðarlegt álag á sjúkraliðastéttina og gistináttagjaldi á sjúklinga. Einnig er gagnrýnt að enn skuli vera jafn mikill óútskýrður launamunur á Íslandi og raun ber vitni. Ályktunina má sjá í heild sinni hér að neðan:

 

Ályktun trúnaðarmannaráðs Sjúkraliðafélags Íslands vegna fjárlaga 2014

Trúnaðarmenn Sjúkraliðafélags Íslands mótmæla harðlega ítrekuðum niðurskurði til heilbrigðismála sem fram koma í fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014.

Sjúkraliðar hafa í mörg ár minnt á að hvorki heilbrigðiskerfið né heilbrigðisstarfsmenn hafi notið meints góðæris sem ríkti á Íslandi. Álag á sjúkraliða hefur á síðustu árum aukist gríðarlega vegna niðurskurðar og aðhalds, sem leitt hefur til aukinna veikinda, kulnunar í starfi og vaxandi örorku. Fjárlögin eru ekki til þess fallin að auka bjartsýni heilbrigðisstétta heldur valda enn og aftur hnignun í heilbrigðisþjónustu, velferð og þróun byggðar í landinu.

Trúnaðarmannaráð Sjúkraliðafélags Íslands mótmælir harðlega þeirri stefnumörkun að í stað gistináttagjalds á ferðamenn séu gjaldtökur færðar yfir á sjúklinga og krefst þess að ríkisstjórnin falli frá þessari skattlagningu. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur vaxið jafnt og þétt á Íslandi og er svo komið að heilbrigðiskerfið mismunar fólki alvarlega eftir efnahag.

Trúnaðarmannaráð Sjúkraliðafélag Íslands fagnar því skrefi sem tekið var með jafnlaunaáataki fyrri ríkisstjórnar hjá hinu opinbera, en bendir á að aðrir vinnuveitendur sjúkraliða hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir gríðarlegan og vaxandi kynbundinn launamun. Enn er mikill óútskýrður kynbundinn launamunur á Íslandi og er til skammar í nútíma samfélagi og er þess krafist að verði leiðréttur í komandi kjarasamningum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?