Ályktun stjórnar BSRB um heilbrigðismál

Stjórn BSRB samþykkti á fundi sínum í Reykjavík í dag ályktun um mikilvægi þess að tryggja um jafnt aðgengi landsmanna allra að heilbrigðisþjónustu. Þar segir m.a. „heilsa fólks getur aldrei orðið eins og aðrar markaðsvörur í samfélagi sem vill kenna sig við jafnræði og réttlæti“ auk þess sem áhersla er lögð á að efling heilbrigðiskerfisins verði gerð með hagsmuni landsmanna allra að leiðarljósi.

 

Ályktun stjórnar BSRB um jafnt aðgengi að  heilbrigðisþjónustu

 

Stjórn BSRB varar við frekari einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins líkt og ýjað er að í nýlegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem undirrituð var í kjölfar nýrra kjarasamninga lækna.

Þótt ýmislegt jákvætt sé að finna í fyrrnefndri viljayfirlýsingu, t.d. varðandi samkeppnishæfni við Norðurlönd, aðbúnað starfsfólks og laun, byggingu nýs Landspítala og endurnýjun tækja segir þar jafnframt að „opna þurfi möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum“. Slíkt verður vart skilið öðruvísi en að auka eigi einkarekstur og einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins.

Einkavæðing og aukin einkafjármögnun í félagslegu heilbrigðiskerfi dregur úr aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sérstaklega hjá þeim sem hafa lægstar tekjur og mesta þjónustuþörf. Heilsa fólks getur aldrei orðið eins og aðrar markaðsvörur í samfélagi sem vill kenna sig við jafnræði og réttlæti. Allur hagnaður sem verður til í heilbrigðiskerfinu á að renna til frekari uppbyggingar kerfisins en ekki enda hjá einkaaðilum sem þjónustuna veita. Um leið og heilsa fólks fer að verða mögulegur gróðavegur fyrir einkafyrirtæki á markaði er hætt við að hinir efnaminni verði undir.

Stjórn BSRB leggur mikla áherslu á að markmið íslenska heilbrigðiskerfisins verði áfram að veita sem jafnastan aðgang allra að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. Öll efling heilbrigðiskerfisins er mikilvæg en hún verður jafnframt að byggja á skynsömum leiðum sem tryggja rétt allra til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?