Áramótapistill formanns BSRB 2025

Nú fer viðburðarríku Kvennaári 2025 senn að ljúka og því tilvalið að staldra við, líta ögn um öxl en svo áfram fram á veginn. Starf BSRB einkenndist á liðnu ári helst af eftirfylgni kjarasamninga, öflugu málefnastarfi og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.

 

Eftirfylgni kjarasamninga

Samhliða síðustu kjarasamningum lýstu stjórnvöld því yfir að farið yrði í þá tímabæru vinnu við að skoða hvernig megi brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Stofnaður var aðgerðarhópur tilnefndur af forsætisráðherra, sem hafði það hlutverk að gera tillögur að útfærslum á því.

Ísland er áratugum á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að aðgengi að leikskóla eða dagvistun að loknu fæðingarorlofi. Eftir fæðingarorlof horfa foreldrar fram á margra mánaða bil sem getur reynt verulega á að brúa. Áhrifin eru langmest á mæður, sem neyðast til að bregðast við stöðunni með því að taka launalaust leyfi, draga úr starfshlutfalli eða leita annarra lausna sem eru bæði dýrar og ótryggar.

Afleiðingarnar snerta ekki aðeins heimilin sjálf, heldur hefur þetta áhrif á tekjur, lífeyrisréttindi og stöðu á vinnumarkaði, og viðheldur þannig kynbundnu misrétti. Um leið finnur vinnumarkaðurinn fyrir því þegar dýrmætt starfsfólk kemst ekki aftur til starfa að loknu fæðingarorlofi.

Nýlega var skýrslu aðgerðarhóps um brúun umönnunarbilsins skilað til forsætisráðherra, en BSRB átti fulltrúa í hópnum. Þar eru lagðar fram tillögur sem geta markað tímamót í fjölskyldu- og jafnréttismálum á Íslandi verði þær að veruleika.

 

Fjölskylduvænna samfélag

Á árinu gafst einnig kærkomið tækifæri til að funda oftar í formannaráði BSRB og skerpa forgangsröðun áherslumála BSRB gagnvart stjórnvöldum. Þar er einhugur um að setja kröfuna um fjölskylduvænna samfélag í forgrunn, ekki síst nú þegar líður að sveitarstjórnarkosningum.

Eins og árleg könnun Vörðu um stöðu launafólks sýnir fram á ná sjö af hverjum tíu endum saman. Engu að síður býr 30% launafólks við allt annan veruleika og er afkoma lágtekjufólks almennt mjög erfið. Þetta endurspeglast í því að umtalsverður fjöldi á vinnumarkaði býr við raunverulegan skort. Fólk af erlendum uppruna, einstæðar mæður eða konur og öryrkjar eru líklegri til að eiga erfitt með að ná endum saman eða búa við fátækt en aðrir hópar samfélagsins. Börn er engu að síður sá hópur sem er útsettastur fyrir að búa við fátækt í íslensku samfélagi.

Þetta sýnir glöggt að stuðningur við barnafjölskyldur skiptir sköpum. Þess vegna leggur BSRB áherslu á að skapa samfélag þar sem öll búa í öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði, bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla er brúað, skattkerfið stuðlar að tekjujöfnun og grunnþjónusta á borð við leikskóla, grunnskóla, skólamáltíðir og frístundir – er gjaldfrjáls, aðgengileg öllum og skipulögð með hliðsjón af hagsmunum barna, foreldra og starfsfólks.

 

Ár barnsins 2026

Kvennaár 2025 er nú að renna sitt skeið – ár sem helgað var því að efla samtakamáttinn og beina kastljósinu að baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, launamisrétti og misrétti þegar kemur að ólaunuðum störfum. Þau fjölmörgu félagasamtök sem stóðu að Kvennaári ásamt BSRB efndu til fjölda viðburða á árinu og greinarskrifa til að varpa ljósi á birtingarmyndir kynjamisréttis sem þrífst hér á landi. Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins 1. maí var helgaður Rauðsokkahreyfingunni sem stofnuð var þann dag fyrir 55 árum, og hápunktur Kvennaársins var án vafa gríðarlega fjölmennt Kvennaverkfall og söguganga á 50 ára afmæli fyrsta Kvennafrísins. Þar fundum við svo sannarlega fyrir mætti samstöðunnar.

Fyrirmynd Kvennaárs má rekja til alþjóðlegs Kvennaárs sem Sameinuðu þjóðirnar boðuðu árið 1975. Í anda þess væri eðlilegt og tímabært að helga næsta ár baráttunni gegn fátækt barna og aðgerðum til að bæta hag þeirra. Fyrirmynd að slíkri áherslu má einnig finna í alþjóðlegu ári barnsins 1979, þegar Sameinuðu þjóðirnar hvöttu ríki heims til að setja velferð barna í forgrunn stefnumótunar og ráðast í varanlegar umbætur. Slík nálgun er ekki aðeins réttlætismál, heldur einnig fjárfesting í framtíð okkar allra.

Áramót marka nýtt upphaf í hugum okkar flestra. Ég þakka ykkur fyrir árið sem er að líða, óska ykkur farsældar á nýju ári og vona að það muni einkennast af samstöðu, samkennd og gleði.