Árangur af styttri vinnutíma fram úr vonum

Magnús Már Guðmundsson og Alda Hrönn Aradóttir (til hægri) voru gestir Kastljóssins í gærkvöldi.

Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar hefur gengið framar björtustu vonum og hefur nú verið ákveðið að gefa öllum vinnustöðum sem óska eftir því kost á að sækja um að taka þátt í verkefninu.

Magnús Már Guðmundsson, formaður vinnuhóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, var meðal viðmælenda í Kastljósinu í gær, þar sem fjallað var um tilraunaverkefnið. Hann sagði árangurinn af verkefninu, sem hófst fyrir um tveimur og hálfu ári, vera afar góðan.

„Það er minni starfsmannavelta og það er auðveldara að ráða inn á þá starfsstaði sem taka þátt,“ sagði Magnús. „Við sáum það á leikskóla sem byrjaði í verkefninu í fyrra að það voru ennþá að berast umsóknir eftir að búið var að manna þær stöður sem upp á vantaði þar,“ sagði hann. Eitt af því sem verði rýnt sérstaklega núna er hvort auðveldara sé að fá fólk til starfa á þeim stöðum þar sem vinnuvikan sé styttri.

Borgarráð samþykkti nýverið að farið verði í annan áfanga tilraunaverkefnisins. Nú hafa allir vinnustaðir borgarinnar tækifæri til að sækja um að taka þátt, eins og fjallað er um í frétt á vef Reykjavíkurborgar. Hægt verður að sækja um að stytta vinnuvikuna um eina til þrjár klukkustundir, svo hún verði 37 til 39 stundir.

Magnús fjallaði sérstaklega um þá tvo vinnustaði sem hafa tekið þátt í verkefninu frá upphafi, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Barnavernd Reykjavíkur. Hann sagði tölur sýna að ekki hafi dregið úr framleiðni þó vinnuvikan hafi verið stytt í 35 stundir hjá þjónustumiðstöðinni og 36 stundir hjá Barnavernd.

Hugarfarsbreyting á vinnustaðnum

Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri og daggæsluráðgjafi hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, sagði að starfsandinn hafi ekki verið góður þegar verkefnið hófst. „Við fengum tækifæri til að bæta líðan okkar,“ sagði Arna Hrönn í Kastljósinu í gær. Hún sagði að dregið hafi verulega úr starfsmannaveltu, starfsmenn séu ánægðari og minna sé um bæði skammtíma- og langtímaveikindi.

Með styttri vinnutíma hefur orðið ákveðin hugarfarsbreyting á vinnustöðunum. Mun minna er um að fólk þurfi að skreppa á vinnutíma, enda oft hægt að sinna slíku eftir að vinnutíma lýkur. Fundir hafa verið endurhugsaðir og eru nú styttri og skilvirkari. „Við erum búin að aga okkur,“ sagði Arna Hrönn.

Nánar er sagt frá tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar í umfjöllun um styttingu vinnuvikunnar. Þar er einnig sagt frá tilraunaverkefni BSRB og ríkisins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?