Árangurslaus samningafundur í dag

Fundi SFR, SLFÍ og LL með samninganefnd ríkisins sem hófst kl. 13 í dag er lokið án árangurs og ekki hefur verið boðað til næsta fundar. Fulltrúar þessara þriggja fjölmennustu aðildarfélaga BSRB fóru fullir bjartsýni á fund samninganefndarinnar í dag enda höfðu ráðamenn ríkissins í allan gærdag talað um góða stöðu ríkissjóðs og fjallað um aukin fjárframlög til hinna ýmsu málaflokka.

Í ræðu sinni lögðu ráðherrarnir áherslu á að aðilar vinnumarkaðarins, bæði hins opinbera og almenna, stæðu saman að því að verðbólgan fari ekki aftur af stað og ógni þannig verðmætasköpun í samfélaginu. Einnig var fjallað mikið um mikilvægi þess að viðhalda stöðugleika og auka sátt í samfélaginu.

Flestir félagsmenn BSRB og aðildarfélaga þess hafa nú verið með lausa samninga í rúmlega hálft ár og fram til þessa hefur samninganefnd ríkisins ekki sýnt af sér neinn raunverulegan vilja til að klára þá samninga. Sameiginleg samninganefnd SFR stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna hefur gert ríkinu ljóst að koma verði til móts við ríkisstarfsmenn umræddra félaga með sama hætti og þá hópa sem nýlega fengu launahækkanir með niðurstöðu Gerðardóms. Eftir fundinn í dag er liggur ljóst fyrir að ríkið ætlar sér ekki að koma til móts við þessar kröfur.

Formenn SFR, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna munu nú ráða ráðum sínum og í kjölfarið kynna næstu skref sem tekin verða í kjaradeilunni.


 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?