Áreitni og ofbeldi upp á yfirborðið

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Þó það geti verið erfitt að hlusta á og lesa frásagnir af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er jákvætt að nú séu þessi mál loksins að komast upp á yfirborðið. Þolendur hafa rofið þögnina og munu vonandi halda því áfram.

BSRB og önnur heildarsamtök launafólks sendu á miðvikudag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem hvatt er til aðgerða. Við verðum sem samfélag að senda skýr skilaboð. Fórnarlömbin verða að vita að þau fái stuðning og úrlausn sinna mála. Gerendur þurfa að vita að þeirra hegðun verður ekki liðin.

Þar leika stjórnvöld lykilhlutverk. Lög og reglur um skyldur launagreiðenda eru skýr en það þarf að framfylgja þeim. Við köllum eftir því að eftirlit verði haft með því að atvinnurekendur fari eftir nýlegri reglugerð sem skýrir þær kröfur sem gerðar eru til þeirra þegar kemur að kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Efla þarf Vinnueftirlitið svo það hafi bolmagn til að heimsækja vinnustaði til að tryggja að þar séu til staðar verkferlar sem starfsfólk þekkir og yfirmenn fara eftir.

Stjórnendur þurfa að taka upp samtalið við sitt starfsfólk og gera því ljóst hvar mörkin liggja, hvað má og hvað má ekki. Starfsmenn þurfa að hafa vissu fyrir því að unnið verði úr þeirra umkvörtunum þegar þeir stíga fram og að málum verði ekki sópað undir teppið eða þau hafi neikvæð áhrif á störf þeirra eða starfsframa. Það að stíga fram á að vera jafn eðlilegt og að óska eftir hlífðarfatnaði á vinnustað. Öll vinnuvernd miðar að því að tryggja að allir séu öruggir og líði vel.

Stéttarfélögin hafa unnið ötullega í þessum málaflokki en þar verðum við augljóslega að gera betur. Við höfum veitt konum og körlum sem orðið hafa fyrir áreitni ráðgjöf, veitt fræðslu, gefið út bæklinga og fræðsluefni og notað net trúnaðarmanna til að auka þekkingu. Við verðum að halda þessari vinnu áfram og einsetjum okkur að gera það. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er óásættanleg og óþolandi hegðun sem verður ekki liðin.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?