Atkvæðagreiðslum að ljúka – Samningar samþykktir

Félagsmenn í þeim félögum sem lokið hafa atkvæðagreiðslum samþykktu nýja kjarasamninga.

Yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna í þeim aðildarfélögum BSRB sem lokið hafa atkvæðagreiðslu um nýja kjarasamninga samþykktu samningana. Atkvæðagreiðsla stendur enn yfir eða er að hefjast hjá öðrum aðildarfélögum.

Atkvæðagreiðslu um samninga aðildarfélaga BSRB sem gerðir voru við Samband íslenskra sveitarfélaga er lokið og niðurstöðurnar farna að berast viðsemjendum og ríkissáttasemjara. Atkvæðagreiðslum nokkurra félaga um samninga við ríkið er einnig lokið. Atkvæðagreiðsla annarra félaga um samninga við ríkið og Reykjavíkurborg stendur enn yfir. 

BSRB hefur ekki fengið niðurstöður frá öllum aðildarfélögum og verður fréttin uppfærð þegar frekari upplýsingar berast.

Alls samþykktu á bilinu 58 til 88 prósent félagsmanna í þeim félögum sem lokið hafa atkvæðagreiðslu kjarasamningana sem er afgerandi meirihluti þeirra sem tóku þátt í kosningunni. Þátttakan var víðast hvar góð þrátt fyrir aðstæður í samfélaginu, eða á bilinu 28 til 68 prósent.

Niðurstöður úr einstökum atkvæðagreiðslum má sjá hér.

Tvö aðildarfélög BSRB til viðbótar hafa nú skrifað undir kjarasamning. Kjarasamningur Félags starfsmanna stjórnarráðsins og ríkisins var undirritaður föstudaginn 20. mars og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna undirritaði samning við Sambandið 26. mars. Samningarnir verða kynntir félagsmönnum og að því búnu lagðir í atkvæðagreiðslu.

 

Fréttin var síðast uppfærð með niðurstöðum úr atkvæðagreiðslum hjá fleiri félögum þann 30. mars 2020 klukkan 15.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?