Átta af tíu vilja meira fé í heilbrigðisþjónustuna

Mikill meirihluti landsmanna vill auka framlög til heilbrigðismála.

Afgerandi meirihluti landsmanna, nærri átta af hverjum tíu, vilja að ríkið verji meira fé í heilbrigðiskerfið en nú er gert samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem unnin var fyrir BSRB og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Afar lítill áhugi er meðal almennings á því að skera niður útgjöld til heilbrigðismála. Þannig vilja aðeins um 2,5 prósent að minna fé verði varið til heilbrigðiskerfisins. Um 19,6 prósent vilja óbreytt útgjöld, en 77,8 prósent vilja auka þau frá því sem nú er.

Rúnar kynnti niðurstöður könnunarinnar, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, á opnum fundi BSRB miðvikudaginn 26. maí 2021. Hægt er að horfa á upptöku frá fundinum hér að neðan.

Talsverður munur var á afstöðu fólks til þess hvort auka eigi útgjöld til heilbrigðisþjónustunnar eftir tekjum. Almennt var stuðningur við aukin útgjöld meiri því lægri sem tekjur viðkomandi voru. Mestur var stuðningurinn meðal þeirra tekjulægstu, um 90 prósent.

„Stuðningur við að veita meira fé til heilbrigðisþjónustu er meiri meðal kvenna en karla, hlutfall kvenna sem styðja það eru um 86 prósent. Þá styðja grunnskólamenntaðir frekar meira opinbert fé,“ sagði Rúnar um þessar niðurstöður. Um 87 prósent þeirra sem aðeins eru með grunnskólamenntun vilja aukið fé í heilbrigðiskerfið.

Sáralítill stuðningur við einkarekstur

Í könnuninni var einnig spurt um rekstrarform heilbrigðisþjónustunnar og reyndist mikill meirihluti landsmanna fylgjandi því að það sé fyrst og fremst hið opinbera, ríki og sveitarfélög, sem veiti heilbrigðisþjónustu. „Það er sáralítill stuðningur við að það séu fyrst og fremst einkaaðilar sem reki heilbrigðisþjónustu af hvaða tagi sem er, samkvæmt þessari niðurstöðu,“ sagði Rúnar.

Svörin voru nokkuð misjöfn eftir því hvaða þjónustu var um að ræða. „Góður meirihluti landsmanna að meðaltali styður að það sé ríki eða sveitarfélög sem reki heilsugæslu, sjúkrahús, hjúkrunarheimili og heimahjúkrun en tannlækningar barna koma þar einnig inn,“ segir Rúnar. Hann segir athyglisvert að jafnvel þeir sem ekki vilji að það sé fyrst og fremst hið opinbera sem reki þjónustuna aðhyllast frekar blandað kerfi en að einkaaðilar sjái alfarið um að veita þjónustuna.

Hægt er að sjá nánari niðurstöður um afstöðu almennings til rekstrarforms mismunandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu á myndinni hér að neðan.

Afstaða til rekstrarforma

 

„Það sem vekur athygli er hversu lítill stuðningur er við að það séu fyrst og fremst einkaaðilar reki nokkurn skapaðan hlut í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Rúnar. Helst sé stuðningur við að einkaaðilar reki sjúkraþjálfun og tannlækningar fullorðinna, en stuðningurinn við að sú þjónusta sé fyrst og fremst í höndum einkaaðila sé í báðum tilvikum undir 20 prósentum. Þá sé athyglisvert að innan við tíu prósent vilji að læknastofur séu fyrst og fremst reknar af einkaaðilum.

Hér má finna glærur Rúnars frá kynningarfundinum.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?