Atvinnurekendur taki næsta skrefið vegna #metoo

Eigi ákall #metoo kvenna um bætt samfélag að verða að veruleika verða allir að taka þátt, jafnt karlar sem konur, segir í ályktun formannaráðs BSRB. Næsta skref er að atvinnurekendur skoði vinnumenningu og greini völd og valdastöðu. Lestu meira á vef BSRB.

Atvinnurekendur þurfa að taka næsta skrefið í tengslum við #metoo byltinguna og ráðast að rótum vandans, segir í ályktun fundar formannaráðs BSRB sem nú stendur yfir.

Í ályktun fundarins segir að fyrstu viðbrögð vinnustaða eftir að #metoo byltingin hófst hafi snúist um að innleiða áætlanir í samræmi við lagaskyldu. Nú sé komið að því að taka næsta skref.

Ályktun formannaráðs BSRB er eftirfarandi:

„Formannaráð BSRB skorar á atvinnurekendur að taka næstu skref í tengslum við #metoo byltinguna. Fyrstu viðbrögð vinnustaða eftir að #metoo byltingin hófst voru að innleiða áætlanir í samræmi við lagaskyldu og er það vel, en það ræðst ekki að rótum þessarar meinsemdar. Þær má rekja til valda og valdaójafnvægis.

Samkvæmt jafnréttislögum skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan sinna vinnustaða, stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf og leggja sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Reynslan sýnir að jöfn staða og jafnir möguleikar kvenna og karla innan vinnustaða koma ekki af sjálfu sér. Það þarf þekkingu, vilja og aðgerðir til að ná fram breytingum á þessu sviði.

Góð stjórnun og markviss samþætting jafnréttissjónarmiða með sérstakri áherslu á að uppræta valdamisræmi í hvers kyns ákvörðunartöku er lykillinn að því að aldrei þurfi nokkur að segja aftur #metoo. Formannaráð BSRB skorar því á atvinnurekendur að taka næsta skref með athugun á vinnumenningu og greiningu á völdum og valdastöðu. Það verða allir að taka þátt, jafnt karlar sem konur, til að ákall #metoo kvenna um bætt samfélag verði að veruleika.“

Hér má lesa allar ályktanir stofnana BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?