Auglýst eftir stofnunum í tilraunaverkefni

Starfshópur um styttingu vinnutíma hefur samþykkt að auglýsa eftir fjórum ríkisstofnunum til að taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar.

Tilraunaverkefni á BSRB og Reykjavíkurborgar hefur þegar verið í gangi í á annað ár, en við það bætist fljótlega annað stærra tilraunaverkefni á vegum ríkisins og BSRB.

Stýrihópur sem undirbýr nú þetta tilraunaverkefni mun auglýsa eftir fjórum vinnustöðum í eigu ríkisins til að taka þátt í verkefninu í október næstkomandi. Af vinnustöðunum fjórum eiga tveir að vera staðir þar sem unnið er eftir vaktavinnufyrirkomulagi.

Einnig verður auglýst eftir tveimur stöðum til viðbótar þar sem vinnuvikan verður ekki stytt. Fylgst verður með þróuninni á þeim vinnustöðum alveg eins og hjá þeim sem vinnuvikan var stytt. Það er gert svo samanburður sé fyrir hendi milli áþekkra vinnustaða þar sem vinnuvikan var stytt og þar sem vinnuvikan hélst óbreytt.

Gerir íslenskt samfélag fjölskylduvænna

BSRB bindur miklar vonir við tilraunaverkefnið og hefur unnið ötullega að styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar í um áratug. Með því að stytta vinnuvikuna má auka verulega lífsgæði starfsmanna og gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna.

Í stefnu BSRB er lögð áhersla á að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 án launaskerðingar. Fyrstu niðurstöður tilraunaverkefnis BSRB og Reykjavíkurborgar lofa góðu um að hægt sé að stytta vinnutímann án þess að það bitni á afköstum starfsmanna. Ákveðið hefur verið að halda því tilraunaverkefni áfram. Niðurstöður sambærilegra verkefna í nágrannalöndunum lofa einnig góðu.

Mundu að fylgjast með BSRB á Facebook til að fá nýjustu fréttirnar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?