Aukið samstarf grundvöllurinn að frekari þekkingu á íslenskum vinnumarkaði

Maya Staub, doktor í félagsfræði og sérfræðingur hjá Vörðu

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar fer Maya Staub doktor í félagsfræði og sérfræðingur hjá Vörðu yfir starfsemi stofnunarinnar og segir frá þeim fjölmörgu samstarfsverkefnum og rannsóknum sem unnið er að. 

Varða  - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins var stofnuð í lok maí 2020 af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. Markmiðið með stofnun Vörðu er að skapa víðtæka þekkingu á lífsskilyrðum fólks, byggja brú á milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar sem og að hvetja til sjálfstæðra rannsókna sem hafa þýðingu fyrir launafólk.

Auk þess að sinna rannsóknarþjónustu fyrir aðildarfélög ASÍ og BSRB, hefur Varða tekið að sér fjölbreytt rannsóknarverkefni er varða lífskjör fólks og hefur nú þegar gefið af sér afurðir sem bæta þekkinguna á vinnumarkaði og lífsskilyrðum fólks í víðu samhengi.

Varða hefur tvisvar staðið fyrir könnun um stöðu launafólks á Íslandi þar sem upplýsinga er aflað um fjárhagslega stöðu launafólks og stöðu á húsnæðismarkaði. Auk þess er einnig er spurt um þætti sem endurspegla mikilvæg málefni líðandi stundar, til að mynda áhrif faraldursins á starfsskilyrði og heilsu fólks. Varða hefur einnig staðið fyrir verkefni sem miðar að því að greina stöðu og bakgrunn ungmenna sem standa utan vinnumarkaðar og skóla með áherslu á þau sem eru af erlendum uppruna. Hér má hlusta á viðtal við Mayu í Samfélaginu á Rúv um það. Þá framkvæmdi Varða umfangsmikla könnun fyrir Öryrkjabandalag Íslands sem meðal annars leiddi í ljós verulega slæma fjárhagsstöðu fatlaðs fólks. 

Yfirstandandi samstafsverkefni Vörðu eru af ýmsu tagi. Í samstarfi við Félagsmálaskóla alþýðu, Jafnréttisstofu, Kvennaathvarfið, Vinnueftirlitið og 112 er verið að vinna að gerð fræðslumyndbanda um heimilisofbeldi og mansal. Að auki tekur Varða nú þátt í umfangsmiklu rannsóknarverkefni um stöðu kvenna í láglaunastörfum. 

Lesa má grein Mayu í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?