Ávarps formanns BSRB og erindi Rúnars

Aðalfundur BSRB var settur í morgun með ávarpi Elín Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB. Því næst flutti Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ, erindið „Staða og framtíð félagslegrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi“ og að því loknu tók Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, til máls og flutti erindi undir yfirskriftinni „Uppbygging lífeyrissparnaðar“.

Í ávarpi formanns BSRB kom hún inn á þau umfjöllunarefni sem Rúnar fjallaði síðan um og lúta að stöðu heilbrigðismála í landinu. „Hér hefur ríkt sátt um það fyrirkomulag að hið opinbera reki heilbrigðiskerfið og fyrir það er greitt úr okkar sameiginlegu sjóðum. Almannatryggingar hafa grundvallast á jöfnu aðgengi fyrir alla. Velferðarþjónusta á samfélagslegum grunni er birtingarmynd lýðræðisins og einn af hornsteinum þess,“ sagði formaður BSRB og hélt áfram:

„En við vitum að þessum fyrirkomulagi er nú ógnað. Til að hægt sé að tryggja jafnan rétt allra verður heilbrigðisþjónustan að vera gjaldfrjáls, það verður að snúa frá aukinni þátttöku almennings í lyfjakostnaði, lækka komugjöld og tryggja heilbrigðisþjónustunni nægt fjármagn til reksturs. Kröfur sem heyrast nú í meira mæli um lækkun skatta, færslu ákveðinna verkefna innan heilbrigðiskerfisins til einkaaðila og aukinni kostnaðarþátttöku almennings eru aðeins til þess fallnar að auka ójöfnuð í samfélaginu. Heilbrigðiskerfið á að reka á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna. Kerfið á að vera skilvirkt og tryggja öllum jafnan aðgang að fyrsta flokks þjónustu. Þetta er mikilvægur þáttur þess að viðhalda öryggi og lífsgæðum fólksins í landinu.“

Að loknu ávarpi formanns BSRB tók Rúnar Vilhjálmsson til máls og kynnti niðurstöður rannsókna sinna og samanburð við sambærilegar rannsóknir erlendis. Kom hann þar m.a. inn á þá staðreynd að allar mælingar í kringum kosningar til Alþingis sýna að almenningur setur heilbrigðismál í eitt af efstu sætunum þegar það er spurt að því hvaða málaflokkur skiptir mestu máli í aðdraganda kosninga. Heilbrigðismál eru fólki þar af leiðandi mjög hugleikinn og Íslendingar líta svo á að það sé eitt af megin viðfangsefnum stjórnmálanna.

Rúnar sýndi jafnframt fram á að íslenska heilbrigðiskerfið hefði lítillega fjarlægst kjörmyndinni af svokölluðu félagslegu heilbrigðiskerfi á undanförnum árum. Það ætti sér m.a. skýringar í því að ákveðin verkefni hefðu verið færð til innan kerfisins og meira væri um að einkaaðilar sinntu afmörkuðum þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Benti Rúnar jafnframt á rannsóknir sem sýna að einkaframkvæmdir í heilbrigðisþjónustu draga almennt ekki úr heildarkostnaði við að reka heilbrigðisþjónustu þótt öðru væri gjarnan haldið fram. Afleiðingar meiri fyrirtækjareksturs innan heilbrigðisþjónustunnar væru gjarnan hærri komugjöld, meiri ósveigjanleiki innan heilbrigðiskerfisins, heildstæð þjónusta heilbrigðiskerfisins minnkaði sem gjarnan leiddi til ósamhverfrar þjónustu og minni skilvirkni.

Afleiðing alls þessa væri gjarnan aukin frestun fólks á því að leita sér aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sem um leið ylli meiri ójöfnuði. Rannsóknir hans hafa leitt í ljós að þeir efnaminni eru mun líklegri en aðrir til að fresta læknisheimsóknum vegna kostnaðar og raunar væri frestun algengust hjá þeim mest mest þurftu á læknisaðstoð að halda.

Samkvæmt mælingum var hlutfall þeirra sem frestaði því að leita sér aðstoðar innan heilbrigðiskerfisins 24% árið 1998, 21,6% árið 2006 en var svo komið upp í 31,7% árið 2013. Þannig hafi hlutfallið stóraukist frá 2006 fram til 2013.

Mælingar á Íslandi hafa líka sýnt fram á yfirgnæfandi stuðning almennings við það fyrirkomulag að hið opinbera reki félagslegt heilbrigðiskerfi. Árið 2013 var stuðningur við að hið opinbera sæi alfarið um rekstur heilbrigðisþjónustu á landinu 81,1% á meðan 18,4% töldu farsælast af fara blandaða leið opinbers reksturs og einkaframkvæmda. Aðeins 0,5% töldu heilbrigðisþjónustu best komna í höndum einkaaðila.

Almennur stuðningur við opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar er því mjög mikill á Íslandi. Að lokum fór Rúnar yfir hvaða þættir hefðu reynst best í erlendum mælingum til að styrkja heilbrigðiskerfi, efla og stuðla að frekari jöfnuði til aðgengis að því. Nefndi hann sérstaklega í því sambandi styrkingu heilsugæslunnar, bættan aðbúnað sjúklinga og starfsfólks, aukna nálægð heilbrigðisþjónustunnar (t.d. vinnustaðaheimsóknir heilbrigðisstarfsfólks, heilbrigðisþjónustu í skólum o.s.frv.), aukin samfella í heilbrigðisþjónustunni með auknu samstarfi stofnanna og þjónustuaðila og eflingu almannatryggingakerfisins með lækkun kostnaðar einstaklinga vegna komugjalda og lyfjakostnaðar.

Að því loknu svaraði Rúnar spurningum viðstaddra og spunnust upp úr því áhugaverðar umræður um stöðu heilbrigðismála á Íslandi og hver stefnan væri.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?