Ávinningi af framförum verði skipt á réttlátan hátt

Formenn bandalaga launafólks á Norðurlöndunum skrifuðu grein um áhrif tækniframfara á vinnumarkaðinn.

Skipta verður ávinningi af tækniframförum með réttlátum hætti með jöfnuð að leiðarljósi segja formenn norrænna bandalaga launafólks sem eiga aðild að Norræna verkalýðssambandinu, NFS.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, er ein fimmtán formanna aðildarfélaga NFS sem skrifuðu grein sem birtist í Fréttablaðinu nýverið um áhrif stafrænnar tækni á vinnumarkaðinn og kjör launafólks.

Í greininni er farið yfir fjögur atriði sem skipta munu máli þegar kemur að þeim miklu samfélagsbreytingum sem ný tækni mun óhjákvæmilega hafa í för með sér. Formennirnir nefna aðkomu launafólks að þróuninni, fjárfestingu í menntun og færniþróun, umræðu um fjárfestingar og nauðsynlega áherslu ríkisstjórna á atvinnu fyrir alla og skoðanaskipti við aðila vinnumarkaðarins.

„Samstarf og skoðanaskipti aðila vinnumarkaðarins, samræður og samningar milli stéttarfélaga, atvinnurekanda og stjórnmálanna eru leiðin til að ræða og leita lausna á því hvernig skipta skuli ávinningi af aukinni framleiðni,“ skrifa formennirnir.

Einskismannsland í netheimum

„Þegar atvinnulífið verður fyrir áhrifum og skipulag þess breytist að einhverju leyti af völdum stafrænnar tækni og aukinnar sjálfvirkni, þarf að ræða fyrirbæri eins og verktöku sem ekki er af fúsum og frjálsum vilja, svonefnda falska verktöku. Það er ótækt að starfsfólk í nethagkerfinu starfi í vinnuréttarlegu einskismannslandi. Við þurfum einnig að ræða skattareglur, bæði í löndunum og á alþjóðavettvangi, til að sporna gegn skattaundanskotum. Alþjóðlegum fyrirtækjum ber einnig að leggja sitt af mörkum til samfélagsins,“ segir jafnframt í greininni.

Lesa má grein formannanna í heild sinni á vef Fréttablaðsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?