Ávörp stjórnarmanna BSRB 1. maí

Heilbrigðiskerfið getur ekki þjónað þeim tilgangi sem því er ætlað, fólk fær ekki læknishjálp vegna plássleysis og skorts á fagfólki. Þetta sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands og stjórnarmaður BSRB, í ávarpi sínu á Ingólfstorgi í Reykjavík á 1. maí.

Hún sagði óásættanlegt að sjúklingar þurfi að greiða hundruð þúsunda króna fyrir lyf og læknishjálp. „Síðustu tillögur þessarar ríkisstjórnar er að draga úr ofsakostnaði þeirra alvarlega veiku, með því að þyngja byrðarnar á öðrum. Ekkert á að draga úr kostnaði sjúkling, bara dreifa birgðunum á fleiri,“ sagði Kristín.

Hún fjallaði einnig um áform stjórnvalda um að bæta við þremur einkareknum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. „Það er trú ríkisstjórnarinnar að það dugi til að auka rennsli á sjúklingum sem fari í gegnum heilsugæsluna. Heilbrigðisráðherra hefur ofurtrú á að þá muni einnig fjölga læknum sem flytji heim. Engu á að bæta við, heldur leysa vanda samfélagsins með aukinni einkavinavæðingu. Hvað er að? Þetta er líkast strútnum sem stingur höfðinu í sandinn og trúir því að þá verði allt í himnalagi. Eða er þetta þaulskipulagt til þess að þróa kerfið í átt að aukinni einkavæðingu með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir almenning?“

Kristín gagnrýndi stjórnvöld harðlega vegna tengsla ráðherra við skattaskjól. Hún sagði hátíðina 1. maí haldna í „skugga einnar ótrúlegustu atburðarásar í sögu íslenska lýðveldisins, þegar forsætisráðherra hefur flæmst frá völdum vegna spillingar og lyga, í kjölfar gríðarlegra mótmæla landsmanna og samstöðu gegn spillingu og ómerkilegheitum“.

Þjóðin sýndi viljann í verki
Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og stjórnarmaður BSRB, ræddi einnig um stöðuna í íslenskum stjórnmálum í ávarpi sínu sem hann flutti á Búðardal. Hann sagði það hafa verið ánægjulegt að sjá rúmlega 20 þúsund Íslendinga mótmæla á Austurvelli vegna tengsla ráðherra við skattaskjól.

„Þar sýndi Þjóðin vilja sinn í verki. Það voru skýr skilaboð sem allir kjörnir fulltrúar á Íslandi ættu að taka til sín. Þar fékk stjórnin spjaldið og þurfti að stokka upp og lofa kosningum fyrr en ella, menn geta deilt hvort nægilega hafi verið stokkað upp, stokkað var upp engu að síður,“ sagði Garðar.

Hann sagði nú komið að vatnaskilum í eftirleik hrunsins. „Vissulega þurfum við að halda uppgjörinu áfram og enginn sem sök ber á að komast hjá því að svara fyrir hana. Við sem samfélag verðum hins vegar að horfa fram á veg. Við verðum að taka höndum saman og byggja upp réttlátt þjóðfélag jöfnuðar og samtryggðar. Við verðum að hlúa að og bæta velferðarkerfið sem forfeður okkar byggðu upp af kröppum kjörum. Við verðum að gera ungu fólki kleyft að koma sér fyrir í mannsæmandi húsnæði, annað hvort til eignar eða leigu, eftir því sem hugur stendur til. Að hlúa að velferð og ríða stuðningsnet frá vöggu til grafar fyrir okkur öll, óháð efnahag og aðstæðum. Búa til gott samfélag fyrir núverandi og komandi kynslóðir.“


Ræðu Kristínar má nálgast hér.

Ræðu Garðars má nálgast hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?